Haukar eru Íslandsmeistarar í 10. flokki karla eftir 60-49 sigur á KR í úrslitum liðanna í Keflavík. KR-ingar létu Hauka hafa vel fyrir hlutunum en þeir Hilmar Pétursson og Hilmar Smári Henningsson reyndust KR-ingum erfiðir viðureingar. Haukar unnu alla leiki sína á tímabilinu á Íslandsmótinu og urðu einnig bikarmeistarar, glæsileg vertíð að baki og Hilmar Pétursson var valinn maður úrslitaleiksins með 17 stig, 6 fráköst og 8 stoðsendingar.
Á leið sinni í úrslit höfðu Haukar 49-37 sigur á Fjölni en KR lagði Þór Akureyri 69-63. Hafnfirðingar byrjuðu betur með 2-6 spretti en KR-ingar tóku þá vel við sér með Danil Krijanovski í broddi fylkingar og tóku 11-2 áhlaup og breyttu stöðunni í 13-8 þar sem 3-2 svæðisvörn KR var Haukum illviðráðanleg. Krijanovski kom KR í 11-8 með villu og körfu að auki og svo aftur í 13-8 með stolnum bolta þar sem hann brunaði upp og skoraði. KR leiddi svo 15-13 að loknum fyrsta leikhluta.
Danil Krijanovski var enn heitur úr fyrsta leikhluta og kom KR í 17-13 í upphafi annars leikhluta en þá tóku Haukar heldur betur viðbragð. Varnarleikur Hafnfirðinga small saman og Hilmar Pétursson jafnaði leikinn 17-17. Haukar tóku 10-0 sprett og komust í 17-23 áður en KR náði að skora en röndóttum gekk illa gegn þéttri vörn Hafnfirðinga. Alfonso Birgir Söruson setti mikilvægan þrist fyrir KR er hann minnkaði muninn í 26-33 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Danil Krijanovski var stigahæstur hjá KR í hálfleik með 12 stig en Hilmar Pétursson var með 11 stig í liði Hauka.
(Hilmar Pétursson sækir að vörn KR-inga)
Danil Krijanovski stal sínum þriðja bolta í upphafi síðari hálfleiks, fór upp og minnkaði muninn í 28-33 en varnir beggja liða mættu þéttar inn í síðari hálfleikinn. Haukar voru við stýrið þó leikhlutinn sjálfur væri jafn og skemmtilegur. KR vantaði fleiri stopp í vörnina en Óðinn Arnarsson kom flottur inn í þriðja leikhluta með mikla baráttu um allan völl. Haukar lokuðu þriðja leikhluta sterkt þar sem Edvinas Gecaeas setti þrist 37-48 þegar 35 sekúndur voru eftir en þetta voru hans fyrstu stig í leiknum. Haukar áttu einnig lokasókn leikhlutans þar sem Hilmar Pétursson laðaði vörn KR að sér en leysti svo boltann út í horn á Mána Rögnvaldsson sem þakkaði fyrir sig með því að skrá stoðsendingu á Hilmar og Haukar leiddu 41-50 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Í fjórða gekk liðunum ekkert að skora en Valdimar Hjalti Erlendsson skoraði loks fyrir Hauka þegar fjórar mínútur voru eftir og kom Hafnfirðingum í 41-52. KR-ingar tóku loks fína rispu og náðu að minnka muninn í átta stig en þeir voru t.d. 1-16 í þristum í dag og hefðu þurft að nýta skotin sín betur til þess að færast nærri Haukum á lokasprettinum. Lokatölur því 60-49 eins og áður grenir fyrir Hauka.
Hilmar Pétursson var stigahæstur hjá Haukum með 17 stig, 6 fráköst og 8 stoðsendingar og Hilmar Smári Henningsson bætti við 14 stigum, 10 fráköstum og 2 stoðsendingum í liði Hauka. Hjá KR var Danil Krijanovski með 18 stig og 5 fráköst en næstur kom Veigar Áki Hlynsson með 13 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar.
Til hamingju Haukar með glæsilega leiktíð.
Texti og myndir/ Jón Björn
(Danil gerir 2 stig fyrir KR)