Lið FSU sigraði Keflavík með 110 stigum gegn 100 á heimavelli þeirra síðarnefndu, í TM Höllinni, fyrr í kvöld í 9. umferð Domino´s deildar karla. Bæði lið standa á sínum stað í töflunni eftir leikinn. Keflavík sem fyrr í efsta sæti deildarinnar (þar sem þeir deila því nú með KR) með 7 sigurleiki og 2 tapleiki. FSU eru í því 11. með 2 sigurleiki og 7 tapleiki.
Fyrir leikinn gefur því augaleið að Keflavík þóttu mun sigurstranglegri þrátt fyrir að í síðustu viðureign þessara liða hafi FSU sigrað, en það var í Lengjubikarnum.
Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleiknum. Þar sem að gestirnir frá Selfossi voru þó (allt eftir fyrsta leikhlutann) eilítið á undan heimamönnum. Fyrsti leikhlutinn endaði með 2 stiga forystu gestanna (27-29), sem var svo komin í 6 stig þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik (54-60).
Þó munurinn hafi verið aðeins þessi 6 stig, var nokkuð ljóst að toppliðið þyrfti algjörlega að keyra sig í gang í seinni hálfleiknum ef ekki ætti illa að fara fyrir þá. FSU var sem dæmi að taka ein 30 fráköst í fyrri hálfleiknum á móti aðeins 17 hjá heimamönnum og gefa 15 stoðsendingar á móti aðeins 9 hjá heimamönnum.
Fyrir heimamenn var það Earl Brown Jr. sem var atkvæðamestur (19 stig, 4 fráköst og 3 stolnir boltar) á meðan að fyrir gestina var það Chris Woods sem dróg vagninn með hvorki meira né minnu en 21 stigiog 15 fráköstum.
Eftir hléið virtust heimamenn ætla sér að, allavegana, halda í við spræka liðsmenn FSU í þessum leik. Unnu t.a.m. 3. leikhlutann með 1 stigi (25-24) og voru því aðeins 5 stigum undir fyrir lokaleikhlutann (79-84)
Þetta (hæga en örugga) áhlaup heimamanna hélt svo áfram vel inn í 4. leikhlutann. Þegar hlutinn var um það bil hálfnaður setur Reggie Dupree langan tvist, þeir ná boltanum aftur geysast upp og Magnús Þór kemur þeim yfir með þrist (í fyrsta skipti yfir síðan í fyrri hálfleik) Þessi forysta varði þó stutt (38 sekúndur) þar sem að það var eins og liðsmenn Keflavíkur væru að einhverju leyti búnir á því. Lið FSU gekk á lagið og kláraði leikinn (að mestu) fljótlega eftir þetta og vann sterkan 10 stiga sigur, 100-110.
Maður leiksins var leikmaður FSU, Chris Woods, en hann skoraði 36 stig og tók 30 fráköst á þeim 39 mínútum sem hann spilaði. Þess má geta að allt lið Keflavíkur tók aðeins 34 fráköst í leiknum.
Umfjöllun & Viðtöl / Davíð Eldur
Viðtöl:
Guðmundur Jónsson – Keflavík
Eric Olson – FSU