Skallagrímur og FSu mættust í Lengjubikar karla í gærkvöldi í Borgarnesi en þessi tvö lið áttu vistaskipti eftir síðust leiktíð. Skallagrímur féll í fyrstu deild en FSu fór upp í úrvalsdeild. Fór svo að FSu fór heim með sigurinn 101-106.
Leikurinn var jafn framan af en í þriðja leikhluta þá höfðu FSU menn undirtökin og smelltu nokkrum eldheitum þristum í andlitið á fjósamönnum. FSU menn þurftu að leggja hart að sér að sækja þennan sigur og þeirra atkvæðamestu menn voru Cristopher Caird, Ari G og Christopher Anderson.
Skallagrímur hefur fengið góðan liðsauka, J.R. Cadot sem er nýlentur á Skerið. Hann gerði sér lítið fyrir og hamraði niður 37 stig og reif niður 15 fráköst. Þessi strákur er með gríðarlegan stökkkraft og verður spennandi að fylgjast með þessu unga liði Skallagríms í vetur með hann innanborðs. Allir í liðinu utan Cadot eru heimamenn, ungir og upprennandi körfuboltamenn.
Það er ljóst það verður ekki auðvelt fyrir önnur lið að sækja sigur í Fjósinu í vetur.
Texti og mynd: Ómar Örn Bragason