Rétt í þessu samþykkti Körfuknattleiksþing KKÍ það að leyfa aðeins 1 leikmann utan EES á leikvellinum (meðan leikklukka gengur) en að öðru leyti er frjálst flæði leikmanna. Grein 15 í reglugerð um körfuknattleiksmót hljómar því svo:
–
Í öllum deildum meistaraflokka karla og kvenna gildir að á leikvelli hverju sinni má mest vera einn leikmaður í hvoru liði sem ekki er ríkisborgari EES ríkis á meðan leiklukka gengur. Í bikarkeppni og meistarakeppni KKÍ gilda sömu reglur og í öllum deildum.
Erlendur ríkisborgari utan EES ríkis sem hefur búið á Íslandi samfellt í þrjú ár eða meira telst ekki sem erlendur leikmaður í reglugerð þessari og skal hann framvísa nauðsynlegum gögnum til skrifstofu KKÍ þar um. Staðfestingu KKÍ þarf til þess að leikmaður teljist með íslenskum/EES ríkisborgurum. Sá sem hefur leiktíðina sem erlendur leikmaður utan EES ríkis telst sem slíkur út leiktíðina og skal miða við fyrsta leik í móti á vegum KKÍ (Íslandsmót, bikarkeppnir eða önnur mót/leikir á vegum KKÍ), nema að fenginni undanþágu stjórnar KKÍ.
Brjóti félag gegn grein þessari telst félag hafa notað ólöglegan leikmann og skal sæta viðurlögum samkvæmt 8. grein reglugerðar um körfuknattleiksmót.
–
Þar sem allsherjarnefnd taldi að þessi tillaga gengi lengst var ekki kosið um aðrar sambærilegar tillögur á þinginu (þingskjal nr. 19).
Þar að auki helst þriggja ára reglan, þ.e.a.s. að erlendur leikmaður utan EES sem hefur búið á Íslandi samfellt í þrjú ár (að fenginni staðfestingu KKÍ) teljist sem íslenskur ríkisborgari eða innan EES.
Kosning á þinginu fór svo:
- 69 Já
- 57 Nei
Af þessu má vera ljóst að landslagið gagnvart erlendum leikmönnum mun breytast talsvert á næsta keppnistímabili.