Í dag klukkan 19:30 fer fram æsispennandi hreinn undanúrslitaleikur í 2. deildinni þegar að Aþena/Leiknir tekur á móti Laugdælum, í Unbroken höllinni í Austurbergi.
Bakhjarlar Aþenu/Leiknis, sem staðið hafa vel við sýna menn á þessu tímabili, bjóða í því tilefni til sannkallaðrar körfuboltaveislu – og verða fyrstu 100 aðgangsmiðarnir fríir í boði Unbroken.
Búast má við sannkallaðri baráttu þegar Lurkabolti Leiknis mætir fimum Laugdælum – en liðin mættust fyrir viku síðan í síðasta deildarleik tímabilsins.
Eins og við má búast hefur Sjötti maðurinn, stuðningssveit Leiknismanna, boðað komu sína og verður því kátt á hjalla í Unbroken höllinni þegar liðin tvö keppast um að sæti í úrslitakeppni 2. deildarinnar.
Karfan.is hvetur alla til að láta sjá sig á pöllunum og styðja þar með við íslenskan körfubolta eins og hann gerist bestur.