spot_img
HomeFréttirFriðrik: Snúum bökum saman núna

Friðrik: Snúum bökum saman núna

 
,,Á þessu stigi skiptir það engu máli hverjum maður mætir því þetta eru allt hörkulið og að mínu mati er Snæfell í betri kantinum af þessum liðum. Það verða því Snæfell eða Grindavík sem detta út núna í 8-liða úrslitum og það er dýrt. Við snúm bökum saman núna og sláum þá bara út, það er takmarkið,“ sagði Friðrik Ragnarsson í samtali við Karfan.is eftir ósigur Grindavíkur gegn ÍR í lokaumferð Iceland Express deildar karla í gærkvöldi.
,,Ég skil ekki hvernig við gátum ekki unnið þennan leik, við vorum 13 stigum yfir og að spila fantavörn svo bara missum við fullt af boltum í sókninni, vorum að hnoða og hnoða. ÍR bara stal boltunum af okkur þar sem við vorum að bulla og þeir fara og skora hinum megin og við bara réttum þeim jafnan leik á silfurfati. Ég er hrikalega óánægður með hvernig við réttum þeim leikinn og það var bara illa unnið úr þessu hjá okkur,“ sagði Friðrik en Grindavík gat orðið deildarmeistari í gærkvöldi hefðu þeir unnið ÍR en leik ÍR og Grindavíkur lauk á undan viðureign Snæfells og KR svo þegar lokaflautan gall í Seljaskóla var vitað að KR var orðið deildarmeistari. Sama hvernig farið hefði í Hólminum.
 
,,ÍR er hörkulið og betur mannaðir en staða þeirra í deildinni segir til um, þeir eru kannski að toppa eitthvað núna en þeir verða ekki auðveldir í úrslitakeppninni,“ sagði Friðrik sem lék án Þorleifs Ólafssonar í gærkvöldi en sá kappi hefur ekki náð að æfa að undanförnu sökum meiðsla.
 
,,Ég bara veit ekki hvort ég nái að vera með 100% hóp, veit ekki hvenær það verður. Þorleifur hefur ekkert verið að æfa svo það er eitthvað í hann ennþá en ég vona bara að ég fari að fá hann inn því hann er mikilvægur póstur í þessu hjá okkur. Þá veitir okkur ekkert af fullu liði á móti Snæfell til að slá þá út.“
 
Ljósmynd/ Friðrik ásamt sínum nánustu ráðgjöfum þeim Pétri Guðmundssyni og Nökkva Má Jónssyni í Seljaskóla í gærkvöldi.
 
Fréttir
- Auglýsing -