13:10
{mosimage}
Grindvíkingar taka á móti ÍR í Röstinni í dag kl. 16:00 en þá mætast liðin í sínum fyrsta leik í 8-liða úrslitum Iceland Express deildar karla. Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst áfram í udnanúrslitin. Karfan.is ræddi við Friðrik Pétur Ragnarsson þjálfara Grindavíkur fyrir leikinn og sagði hann ekkert rúm fyrir vanmat því ÍR-ingar hefðu í fyrra verið vegnir, metnir og léttvægir fundnir en slógu engu að síður KR út úr fyrstu umferðinni.
,,Fyrir fjórum árum slóu þeir Njarðvík út og þetta ÍR lið er baráttumikið lið. Við erum nýkomnir úr hörkuleik gegn þeim og við verðum bara að vera tánum og taka þá virkilega alvarlega,“ sagði Friðrik sem hvíldi Pál Axel Vilbergsson í síðasta deildarleiknum gegn ÍR. Verður hann með í dag og orðinn góður?
,,Já já, hann var tæpur í öðru hnénu og við hefðum svo sem getað hlaupið á honum í síðasta leik en við ákváðum að hvíla hann og þetta mun ekkert há honum,“ sagði Friðrik sem kvaðst ánægður með tímabilið hingað til. ,,Við erum með árangurinn 19-3 í deildinni og það er bara mjög góður árangur. Við höfum verið að spila ágætlega, misjafnir engu að síður og okkur hefur tekist að klára marga erfiða leiki og finnst mér það vera munurinn á liðinu mínu í ár frá því í fyrra.“
Friðrik sagðist litlu kvíða í úrslitakeppninni því liðið væri í góðu formi og innstillt á það að ná langt. ,,Allir klárir og heilir og mikill hugur í mannskapnum svo við munu gera eins góða atlögu að titlinum og við getum,“ sagði Friðrik en verður hann Friðrik annar (nr.2) til þess að færa bæjarfélaginu Íslandsmeistaratitil?
,,Ég vona það en maður þarf bara að passa sig á því að horfa ekki of langt fram í tímann og í dag er ekkert annað til en ÍR í okkar huga,“ sagði Friðrik sem átti margar góðar rimmur í bakvarðastöðunni gegni Jóni Arnari þjálfara ÍR. Verður þeirra glíma eitthvað öðruvísi núna þegar þeir eru þjálfarar?
,,Í sjálfu sér ekki, við áttum fínar rimmur og Jón var hörkuleikmaður, við tveir erum kannski ekki í neinni rimmu heldur gerum bara það sem við getum og kannski undir okkar leikmönnum komið hversu vel þeir láta okkur líta út,“ sagði Friðrik léttur í bragði.