Friðrik Hreinsson mun ekki leika meira með Tindastól þessa leiktíðina. Brotthvarf Friðriks má rekja til bresta í samskiptum hans og þjálfara liðsins, Bárðar Eyþórssonar. Friðrik sagðist í samtali við Karfan.is ekki vera viss um framhaldið hjá sér. Fram kom í máli Bárðar Eyþórssonar þjálfara Tindastóls að Friðrik væri í pásu en þau orð lét hann falla eftir sigurleik Tindastóls í Ljónagryfjunni þegar fréttaritari Karfan.is tók af Bárði tal.
,,Þjálfarinn kom til mín og tjáði mér að ég skyldi taka mér frí frá æfingum og keppni með liðinu fram að áramótum, hið minnsta. Hvort hann vildi að ég tæki mér frí vegna jólainnkaupa og kökubaksturs veit ég ekki,” sagði Friðrik og rekur sína hlið málsins:
,,Sitt sýnist hverjum en minn skilningur á þessu útspili er einfaldlega sá að ég er ekki velkominn innan liðsins. Það urðu ákveðnir brestir í samskiptum milli mín og Bárðar fyrr í vetur. Slíkt getur gerst þegar tveir þrjóskupúkar og keppnismenn eiga í hlut og eru ekki sammála. En við ræddum það á sínum tíma og ákváðum báðir að taka okkur á og var það mál búið af minni hálfu. Ástæðan sem hann gaf upp voru s.s samskiptaörðugleikar á milli mín og hans. Svo lenti ég í erfiðum meiðslum og var kominn aftur inn þegar hann tilkynnir mér þetta,” sagði Friðrik og er ósáttur við vinnubrögðin.
,,Að mínu mati eru þau ekki til fyrirmyndar. Ég vil annars nota tækifærið og óska vinum mínum og liðsfélögum alls hins besta í vetur. Það eru toppmenn og sterkir karakterar innan liðsins og er ég sannfærður um að liðið á eftir að hala inn stigum í deildinni og fara í úrslitakeppnina þar sem liðið á heima,” sagði Friðrik og bætti við að það ætti bara eftir að koma í ljós hvað hann myndi gera í framhaldinu en hann er búsettur í Skagafirði og umtalsverður spölur í næsta körfuboltalið.
Karfan.is setti sig líka í samband við Þröst Jónsson formann körfuknattleiksdeildar Tindastóls og óskaði eftir viðbrögðum frá honum í s.b.v. brotthvarf Friðriks. Þröstur ákvað að tjá sig ekki um málið.