Íslenska karlalandsliðið tryggði sér fyrr í dag þátttökurétt á næsta stigi undankeppninnar fyrir Heimsmeistaramótið í körfubolta árið 2023 með sterkum fimmtán stiga sigri á Slóvökum, 94-79, en leikið er í búbblu í Kósóvó.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, og nýttu Slóvakar sér sérstaklega að Tryggvi Snær Hlinason fékk sína þriðju villu snemma í öðrum fjórðung, en Tryggvi var Slóvökum afar illviðráðanlegur í teignum. Íslendingar létu fjarveru Tryggva hins vegar ekki á sig fá og höfðu fjögurra stiga forskot í hálfleik, 39-43.

Því jafnræði sem hafði verið með liðunum í fyrri hálfleik var hins vegar ekki fyrir að fara í þriðja leikhluta. Íslensku leikmennirnir settu á svið þriggja stiga sýningu í fjórðungnum, og höfðu 24 stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 55-79. Í lokafjórðungnum náðu Slóvakar aldrei að ógna því forskoti að neinu viti, og höfðu Íslendingar að lokum fimmtán stiga sigur, 79-94.
Hvað skóp sigurinn?
Eins og fyrirsögnin ber með sér skóp frábær þriðji leikhluti sigur Íslands, en liðið vann leikhlutann með 20 stigum, 36-16. Þristunum hreinlega rigndi yfir Slóvakana í fjórðungnum, en Íslendingar settu alls sjö af fjórtán þristum sínum í þriðja leikhluta.

Hver stóð upp úr?
Jón Axel Guðmundsson bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn á vellinum í Kósóvó. Jón Axel skoraði 29 stig, tók 6 fráköst og gaf fimm stoðsendingar og var nánast óstöðvandi í sóknarleik Íslendinga. Tryggvi Hlinason var einnig frábær, með 17 stig og 14 fráköst, þrátt fyrir að hafa fengið sína fjórðu villu snemma í þriðja leikhluta.

Framhaldið
Eftir sigur dagsins er ljóst að Ísland heldur áfram á næsta stig undankeppninnar fyrir HM 2023 sem fram fer í Indónesíu, Japan og Filippseyjum. Liðið leikur næst gegn Lúxemborg laugardaginn 20. febrúar.