Undir 18 ára drengjalið Íslands lagði Ungverjaland í lokaleik riðlakeppni á Evrópumótinu í Skopje í Makedóníu í morgun. Sigur Íslands nokkuð frækinn í ljósi þess að Pólland var efst í riðlinum og hafði aðeins tapað einum leik á mótinu til þessa. Eftir leikinn er það Ísland sem er efst í riðlinum, en fjögur af sex liðum hans eiga eftir að leika sinn leik, svo ekki er ólíklegt að Ísland eigi eftir að enda í 2. eða 4. sæti riðilsins þegar að allir hafa lokið leik í riðlakeppninni seinna í dag.
Leikur dagsins var í járnum allt frá byrjun til enda, en þegar venjulegur leiktími var búinn var staðan jöfn 66-66 og því þurfti að framlengja. Í framlengingunni var Ísland svo mun betra liðið, vinna hana 11-4 og leikinn að lokum með 7 stigum, 77-70.
Atkvæðamestur fyrir Ísland í dag var Kristófer Breki Björgvinsson með 21 stig, 7 fráköst. Þá skiluðu Viktor Jónas Lúðvíksson 12 stigum, 12 fráköstum, Logi Guðmundsson 8 stigum, 9 fráköstum, Thor Grissom 12 stigum og Ásmundur Múli Ármannsson 15 stigum og 3 fráköstum.
Ekki er víst hvað tekur við hjá íslenska liðinu, en úrslit dagsins munu skera úr um hvort liðið mun leika í átta liða úrslitum keppninnar eða fara í keppni um sæti 9 til 22 á mótinu.