Íslensku landsliðin halda áfram að gera það gott um alla evrópu. Rétt í þessu komst íslenska U18 landslið kvenna í undanúrslit í B-deild evrópumótsins.
Ísland mætti Hvíta Rússlandi í dag í átta liða úrslitum mótsins. Hvíta Rússland vann alla sína leiki í B-riðli og höfðu verið að spila mjög sannfærandi og mátti því búast við hörkuleik.
Í gær var óvíst með þátttöku hjá þeim Thelmu Dís og Emelíu Ósk en þær voru veikar í gær. Þær skriðu saman í morgun og eftir gott ristað brauð með súkkulaði voru þær meira en klárar í leikinn stóra.
Ísland byrjaði mun betur í leiknum og náði góðri forystu strax í fyrir hálfleik. Hvíta rússar hélt í við okkar stelpur og komst yfir í byrjun annars leikhluta en Ísland náði þó sjö stiga forystu fyrir hálfleikinn.
Hvíta-Rússland náði smá áhlaupi í þriðja leikhluta en loka fjórðungurinn var algjörlega í eign Íslands sem hafði á endanum 17 stiga sigur og sæti í undanúrslitum evrópumótsins tryggt.
Eins og í síðustu leikjum var Sylvía Rún atkvæðamest í liðinu með 15 stig og 9 fráköst. Þá var Emilía Ósk Gunnarsdóttir sterk með 20 stig en sigurinn var gríðarlegur liðssigur þar sem allir lögðu eitthvað til.
Vert er að minnast á að Thelma Dís Ágústsdóttir sem óljóst var að gæti spilað leikinn var með 100 % skotnýtingu í leiknum. Greinilegt að ristað brauð með súkkulaði er frábær undirbúningmáltíð.
Ísland mætir Grikklandi í undanúrslitum á morgun (30. júlí) kl 19 en Grikkland vann Þýskaland fyrr í dag og hafa verið mjög sterkar. Verkefnið er því ærið en íslensku stelpurnar hafa ekki sýnt neina hræðslu á mótinu og mæta kokhraustar til leiks.
Frétt / Ólafur Þór Jónsson