Íslenska landsliðið hóf undankeppni evrópumóts landsliða með öruggum sigri á Sviss 72-88. Leikurinn er góð byrjun því framundan er erfið útileikja törn.
Íslenska liðið byrjaði frábærlega og ver með tögl og haldir allan fyrri hálfleikinn, staðan að honum loknum 47-29 Íslandi í vil. Logi Gunnarsson var frábær og hitti gríðarlega stórum skotum auk þess sem Hörður Axel og Martin voru í stórum hlutverkum.
Sviss gaf aðeins í er seinni hálfleikur hófst og tókst að minnka muninn minnst í átta stig í þriðja leikhluta. Sérstaklega tapur sóknarleikur Sviss og góð vörn Íslands kom muninum aftur nærri tuttugu stigum um miðbik fjórða leikhluta.
Þáttaskil:
Það voru í raun engin sérstök þáttaskil í þessum leik. Íslenska liðið átti ansi nálægt fullkomnum leik í fyrri hálfleik og Sviss sá í raun ekki til sólar eftir það. Þrátt fyrir að gestirnir hafi átt nokkur áhlaup þá voru þau þegar á heildina er litið veik.
Tölfræðin lýgur ekki:
Sviss tapaði 16 boltum í leiknum og hittu undir 40% á vellinum. Ísland var með 68% nýtingu fyrir innan þriggja stiga línuna og 43% fyrir utan hana. Þrátt fyrir þetta allt tók Sviss heil 17 sóknarfráköst gegn 6 hjá Íslandi sem ætti í raun að vera nóg til að sigra leiki.
Hetjan:
Vörn Íslands var hetja leiksins, Svisslendingar urðu fljótt pirraðir á harðri vörn Íslands þar sem skipt var á öllum boltahindrunum og ekkert pláss gefið.
Ef horft er á leikmann þá var Martin Hermannsson fremstur meðal jafningja. Auk þess að skila 14 stigum og hitta frábærlega var varnarleikur hans óaðfinnanlegur. Framfarirnar sem kauði hefur tekið varnarlega eru gríðarlega sem gæti reynst algjör úrslitaeiginleiki fyrir íslenska liðið.
Kjarninn:
Ísland vann fyrsta leikinn sem var í raun algjör forsenda fyrir áframhaldandi möguleika. Liðið fer nú til Kýpur, Belgíu og Sviss með kassann á lofti.
Þegar talið verður uppúr pokanum eftir leikina sex verður mikilvægt að vera með góða stöðu og vinna með sem mestum mun þar sem einungis fjögur lið úr öðru sæti komast áfram. Þar ræður stigamunur og því hefði Ísland alveg mátt vinna með stærri mun en lélegur þriðji leikhluti kom aðallega í veg fyrir það.
Myndasafn (Þorsteinn Eyþórsson)
Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson
Myndir / Þorsteinn Eyþórsson