Undir 16 ára landslið stúlkna vann sinn annan leik á NM 2016 í Finnlandi í dag þegar þær lögðu lið Eistlands af velli. Stelpurnar byrjuðu leikinn af krafti og leiddu með 20 stigum í hálfleik. Eistar mættu sterkari til leiks í seinni hálfleik en íslensku stelpurnar stóðu af sér áhlaupið og sigruðu örugglega með 16 stigum, 55-71.
Elsa Albertsdóttir settu niður fyrstu stig leikins fyrir Íslendinga eftir fallega stoðsendingu frá Birnu Valgerði. Íslensku stelpurnar spiluðu virkilega vel í upphafi leiks, létu boltann ganga vel í sókninni og náðu að galopna vörn Eistanna. Ísland náði mest 13 stiga forystu í leikhlutanum en Eistar náðu að minnka þann mun áður en fjórðungurinn var úti og leiddi Ísland með 9 stigum eftir fyrsta leikhluta, 10-19. Birna Valgerður var stigahæst Íslendinga með 7 stig og 1 stoðsendingu og Elsa Albertsdóttir var komin með 4 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar.
Hrund Skúladóttir setti niður þrist fyrir Ísland í upphafi annars leikhluta og bætti við tveimur þristum til viðbótar áður en annar leikhluti var hálfnaður. Íslenska liðið hélt áfram að spila góða vörn og fallegan sóknarleik sem gladdi augað, þær héldu til klefa í hálfleik með 20 stiga forystu 20-40. Birna Valgerður var komin með 12 stig og 3 stoðsendingar í hálfleik og Hrund Skúladóttir 11 stig og 6 fráköst.
Örlítið bakslag kom í varnarleik íslenska liðsins í öðrum leikhluta og skoraði eistneska liðið 22 stig í fjórðungnum. Sóknarleikur Íslendinga hélt þó velli og því munaði enn 14 stigum á liðunum fyrir lokaleikhlutann. Eistar minnkuðu muninn niður í 11 stig strax í byrjun fjórða leikhluta en þá skellti Ísland í lás og lítið sem ekkert gekk í sóknarleik eistneska liðsins næstu mínúturnar. Ísland leiddi með 22 stigum þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum og lönduðu að lokum öruggum 16 stiga sigri, 55-71.
Maður leiksins var Hrund Skúladóttir með 21 stig, 10 fráköst og 3 stoðsendingar.