Hulda Björk Ólafsdóttir mun ekki leika meira með Grindavík í úrslitakeppni í Bónus deildar kvenna sökum slitins krossbands. Staðfestir félagið þetta í samtali við Körfuna fyrr í dag.
Meiðslin áttu sér stað í fyrri hálfleik fyrsta leik átta liða úrslita Grindavíkur gegn Haukum síðastliðinn mánudag, en samkvæmt heimildum Körfunnar mun vera um slitið fremra krossband í hnéi að ræða sem staðfest var af læknum eftir myndatökur fyrr í dag.
Ekki er staðfest hversu langan tíma það mun taka fyrir leikmanninn að komast aftur til æfinga með liðinu, en ljóst er að um alvarleg meiðsl er að ræða sem taka venjulega á milli 6 til 10 mánuði að ná sér af.
Það munar um minna fyrir Grindavíkurliðið að missa Huldu úr liðinu, en eftir gott tímabil í fyrra bætti hún enn í á yfirstandandi tímabili og var einn af betri leikmönnum deildarinnar, með 12 stig og 3 fráköst að meðaltali í leik.