spot_img
HomeFréttirFörum vel með frelsið

Förum vel með frelsið

Nánast engar hömlur verða á vægi erlendra leikmanna í íslenskum körfubolta frá og með næsta tímabili. Lið geta leikið án íslenskra leikmanna kjósi þau það. 

Þessi niðurstaða körfuknattleiksþings er nokkur tíðindi og gjörólík tillögu sem stjórn lagði fram um efnið eftir virkt samráð við forráðafólk félaga í aðdraganda þings. Að tillaga um hömluleysi í útlendingamálum hafi notið stuðnings ríks meirihluta á þingi eftir að nánast andstæð tillaga stjórnar hafi verið lögð fram eftir virkt samráð, og ætlað samþykki félaganna, kom því á óvart. Niðurstaðan var þó, eins og áður segir, skýr og því ljóst að hreyfingin vill fara þessa leið.

Eflum okkar fólk

Ef vel er farið með getur þessi ákvörðun skapað tækifæri. Nú er skýrari krafa en áður til félaga að þau marki sér stefnu. Nú verður ekkert lið neytt til að nýta íslenska leikmenn, lið geta valið að gera það ekki.

Ef við viljum að íslenskur afrekskörfubolti eigi sér framtíð þurfa íslenskir leikmenn að fá hlutverk, svo einfalt er það. Þó freistandi sé að verja fé í erlenda leikmenn til að komast nær sigrum eða titlum þá eru aðrir valkostir í stöðunni. 

Til viðbótar við að gefa ungum leikmönnum færi á að þroskast þá þarf að sinna innviðum starfsins. Við þurfum að styðja þjálfara vel í sínum verkum, skapa dómurum góða umgjörð og efla okkar sjálfboðaliða í stað þess að verja stöðugt meira fé í innflutning leikmanna. Félögin þurfa að horfa inn á við og velja sína leið. Peningar eru takmarkaðir og lið sem velur að fjárfesta í fjölda atvinnumanna fjárfestir ekki fyrir sömu aura í þjálfurum, dómurum eða eflingu þroska og færni ungra leikmanna.

Sporin hræða

Erlendar rannsóknir sýna skýrt að í sambærilegum aðstæðum og íþróttin mun búa við á næsta tímabili dregur verulega úr þátttöku, framlagi og mikilvægi heimamanna á kostnað erlendra atvinnumanna. Mínútum fækkar ekki bara heldur verða heimamenn meira uppfyllingarefni. Við eigum tækifæri til að læra af reynslu annarra. Við þurfum einfaldlega að vilja það og haga okkur í samræmi við það.

Auðveldast að vinna bara með útlendingum 

Körfubolti er risaíþrótt og nægt framboð er af erlendum körfuboltaverkamönnum sem geta bætt íslensk lið. Á næsta tímabili er einfaldasta ákvörðunin til skjóts árangurs að fylla lið af erlendum leikmönnum. Það væri feigðarflan fyrir íþróttina á Íslandi en gæti skilað titli sem kannski er endamarkmiðið, sama hvað. 

Frelsi og ábyrgð
Hinu nýfengna frelsi fylgir bæði ábyrgð og mikil völd. Mikilvægt er að farið sé vel með það. Frá því hömlur á vægi erlendra leikmanna voru minnkaðar hefur vægi íslenskra leikmanna minnkað stöðugt. Það hefur aldrei verið minna en nú. Sporin hræða og óttast má við förum enn lengra í útlendingaátt áður en við tökum í handbremsuna og áttum okkur á þvi að uppbygging íslensks körfubolta verður ekki eins og við vonumst til í slíku umhverfi. Ef illa fer verða íslenskir leikmenn sem einhverju skipta teljandi á fingrum annarrar handar að fáum árum liðnum.

Ef við viljum byggja upp körfubolta til framtíðar á Íslandi verða íslenskir leikmenn að spila körfubolta og skipta lið sín einhverju máli. Við erum á vegferð að stöðugt færri leikmenni geri það.

Við hvetjum forráðafólk félaga til að tjalda ekki til einnar nætur, gefa íslenskum leikmönnum tækifæri þó það kosti sigra eða titla í veröld þar sem einfalt mál er að bæta bara við einum útlendingi í viðbót til að vinna næsta leik. Þannig eflum við íþróttina okkar. 

Áfram körfubolti!

Björgvin Ingi Ólafsson

Darri Freyr Atlason

Fréttir
- Auglýsing -