Forráðamenn NBA liða vilja að leikmenn liða deildarinnar fái hið minnsta einn mánuð til þess að æfa áður en að deildin er sett af stað aftur, hvenær sem svo það verður. Þetta skilyrði setja þeir fram, til þess að draga úr líkum á að leikmenn þeirra meiðist þegar af því verður að leikið verður aftur.
Samkvæmt Baxter Holmes hjá ESPN munu framkvæmdarstjórar og sjúkraþjálfarar liða vera sammála um að ekki sé hægt að búast við því af leikmönnum að þeir fari beint í að spila leiki eftir langt hlé, þó svo að það sé verið að reyna að lágmarka fjárhagslegan skaða liðanna.
Samkvæmt einum forráðamanni er mikill munur á þeirri aðstöðu sem leikmenn hafa í þeirri einangrun sem þeir eru í þessa stundina. Sumir búi í risastórum húsum og hafi þar góða æfinaaðstöðu, á meðan að aðrir þurfi að sætta sig við eitthvað mun minna. Því þurfi að taka tillit til þeirra sem hafi haft minnsta aðtöðu þegar tekin er ákvörðun um hvað leikmenn fái að æfa lengi áður en farið er út í að skipuleggja leiki.