Keflavík sigraði Snæfell fyrr í kvöld á heimavelli sínum, í TM Höllinni, með 131 stigi gegn 112. Keflavík er því sem fyrr í efsta sæti deildarinnar á meðan að Snæfell eru í því 7. Mikið stigaskor í leiknum gaf af sér helling af allskonar gúmmelaði fyrir góða talnasúpu.
Fyrir leikinn hefði kannski mátt búast við hverju sem er af liðunum tveimur. Sem hvort um sig hafa sýnt fram á mjög kaflaskipta spilamennsku í vetur. Leikmannahópur Keflavíkur hafði farið í gegnum einhverjar breytingar, en á dögunum sögðu þeir upp samning við Earl Brown og gerðu nýjan við fyrrum erlendan leikmann Tindastóls, Jerome Hill.
Fyrri leikur liðanna í deildinni í vetur fór fram þann 5. nóvember síðastliðinn. Þar fór Keflavík einnig með sigur af hólmi í þó ögn eðlilegri og meira spennandi leik, 87-96.
Eftir fyrsta leikhluta leiksins voru svosem einhver teikn á lofti um hvað koma skyldi. Með Val Orra Valsson og nýja leikmanninn Jerome Hill til forystu voru heimamenn skrefinu á undan Snæfelli allt frá fyrstu mínútu. Hlutinn endar í 32-23.
Eftir annan leikhlutann var það hinsvegar ljóst að annaðhvort voru varnirnar skildar eftir heima eða að sóknir liðanna hefðu tekið stökkbreytingu síðustu daga. Hlutinn fór 39-37 fyrir heimamönnum. Munurinn því kominn í 11 stig fyrir heimamenn, 71-60. Þess má geta að Keflavík var á þessum punkti búið að skora meira heldur en þeir gerðu í öllum síðasta leik sínum sem var gegn Hetti.
Atkvæðamestur fyrir heimamenn í hálfleik var áðurnefndur Valur Orri Valsson með 17 stig og 9 stoðsendingar á meðan að fyrir gestina var það Sigurður Þorvaldsson sem dróg vagninn með 17 stigum og 3 fráköstum.
Í seinni hálfleiknum hélt svo þessi flugeldasýning áfram. Staðan eftir 3 leikhluta var 105-87. Munur upp á 18 stig svosem ekki mikill í körfubolta, en fljótlega í þeim 4. þó ljóst að gestirnir áttu ekki mikla möguleika á að vinna forystuna niður þar sem (næstum) allt rataði ofaní hjá heimamönnum.
Snæfell hélt þó í við þá undir lokin, töpuðu síðasta leikhluta leiksins með aðeins 1 stigi, 26-25. Fór svo að leikurinn endaði með 19 stiga sigri heimamanna, 131-112.
Hattur skal tekinn ofan fyrir þríeyki Snæfells, þeim Sigurði Þorvalds, Austin Magnús Bracey og Sherrod Wright. Sem samanlagt skoruðu 84 stig í kvöld á um 61% skotnýtingu. Nýr leikmaður Keflavíkur átti einnig flottan dag, en hann var aðeins 2 stoðsendingum frá þrefaldri tvennu í þessum fyrsta leik sínum fyrir Keflavík (22/11/8)
Maður leiksins var hinsvegar leikstjórnandi Keflavíkur, Valur Orri Valsson, en hann skoraði 27 stig og gaf 14 stoðsendingar á þeim rétt tæpu 34 mínútum sem hann spilaði.
Umfjöllun, viðtöl / Davíð Eldur
Myndir / SBS