spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaFlugeldasýning í Seljaskóla: ÍR 118 - 100 Valur

Flugeldasýning í Seljaskóla: ÍR 118 – 100 Valur

ÍR-ingar tóku á móti Valsmönnum í Hertz hellinum í kvöld í fyrsta leik 7. umferðar Dominos deildar karla. Í síðustu umferð unnu Valsarar frábæran sigur á Stjörnunni en ÍR gerði góða ferð til Þorlákshafnar og sóttu sigur gegn lánlausum Þórsurum.

Fyrstu þrír leikhutarnir voru stórkostleg skemmtun þar sem bæði lið skiptust á áhlaupum og leiftrandi sóknarleik. Í fjórða leikhluta tóku Breiðhyltingar hins vegar öll völd á vellinum, lokuðu leiðinni að með alls fjölbreyttri vörn sem Valsmenn náðu ekki að leysa.

Stigahæstur ÍR í kvöld var Justin Martin sem henti í 45 stig og 10 fráköst, Gerald Robinson var með 31 stig og 12 fráköst og Sigurður Þorsteinsson var með 24 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Hjá Val var Kendall Anthony Atkvæðamestur með 28 stig og 11 stoðsendingar, þá setti Austin Bracey 25 stig.

 

Í hnotskurn

Bæði liðin settu gríðarlega orku og afl í sóknarleikinn, þegar uppi er staðið þá gátu ÍR hins vegar haldið lengur út enda með breiðari hóp og gátu skipt leikmönnum inn á án þess að veikja liðið mikið. Daði Berg, Trausti, Sigurkarl og Sævar gátu allir skilað mínútum þar sem Breiðhyltingar töpuðu ekki miklum gæðum, það sama átti ekki við um Valsliðið sem veiktist við hverja skiptingu. Þarna er undirritaður ekki að tala um stigaskorun, enda kom hún ekki af bekknum.

Þarna má einnig nefna að besti leikmaður ÍR var ekki með í kvöld, Matthías Sigurðarson er enn frá vegna meiðsla.

Vendipunkturinn

Valsmenn mættu einfaldlega flatir (eða þreyttir) inn í fjórða leikhluta og á meðan að ÍR hélt áfram að kveikja í netinu eins og hina þrjá leikhlutana. Þarna skiptu ÍR oft um varnarafbrigði, nýttu sér meðal annars svæðisvörn og tókst þannig að hefta langbesta sóknarmann Valsmanna, Kendall Anthony.

Tölfræðin lýgur ekki

ÍR tóku heil 22 sóknarfráköst í kvöld gegn einungis 9 frá Hlíðarendapiltum. Þetta skilaði sér í mikið fleiri skotum og helium 10 fleiri hittnum skotum. Munur sem er afskaplega erfitt að brúa. Að öðru leiti áttu Valsmenn flotta fyrstu þrjá leikhluta, þannig að tölfræðilegur munur er kannski ekki eins mikill og hann gæti hafa verið.

Hetjan

Þrír leikmenn ÍR settu yfir 20 stig, Sigurður Þorsteinsson var með 24 stig og Gerald Robinson var með 31 stig. Hetja kvöldsins var hins vegar Justin Martin sem smellti í 45 punkta ásamt því að taka 10 fráköst. Algerlega frábær leikur hjá Martin, sérstaklega í síðari hálfleik eftir að Sigurður hafði dregið vagninn framan af.

 

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -