spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaFlottum leik lauk með heimasigri Tindastóls á Stjörnunni

Flottum leik lauk með heimasigri Tindastóls á Stjörnunni

Tindastóll vann Stjörnuna í kvöld í Síkinu, 98-89, í fimmtu umferð Subway deildar karla.

Tindastólsmenn höfðu ekki byrjað tímabilið vel (1 sigur í fyrstu fjórum leikjunum) og meiðsli leikmanna setti strik í reikninginn hjá þeim. Á sama tíma hafði Stjarnan sömuleiðis ekki farið eins vel af stað og þeir vildu (2 sigrar og 2 töp) og bæði lið því að mæta reiðubúinn í þennan leik.

Stjarnan byrjaði betur og náði 11 stiga forystu áður en fimm mínútur voru liðnar af leiknum. Heimamenn tóku við sér eftir það og jöfnuðu leikinn fyrir leikhlutaskiptin. Í öðrum leikhlutanum hefði Tindastóll þeyst fram úr Stjörnunni ef gestirnir hefðu ekki notið liðsinnis Roberts Turner, sem reyndist Stólunum mjög erfiður á köflum. Staðan í hálfleik 44-48, Stjörnumönnum í vil.

Heimamenn ætluðu aftur að hlaupa burt með leikinn í þriðja leikhluta en nokkrir stórir þristar hjá Garðbæingum héldu þeim í seilingarfjarlægð alveg þangað til á lokametrunum í fjórða leikhlutanum. Undir lok leiksins skipti sköpum nokkrir litlir hlutir eins og sóknarfráköst og varnarfærslur og Stólarnir stóðu uppi sem sigurvegarar, 98-89.

Atkvæðamestur heimamanna í kvöld var Antonio Woods með 36 stig, 3 fráköst og 71% skotnýtingu utan þriggja stiga línunnar (5/7 í þristum). Honum næstur var Ragnar Ágústsson með 17 stig, 5 fráköst og 4 stolna bolta.

Hjá Stjörnunni var Robert Turner bestur með 37 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar.

Bæði lið eiga leik næst þann 20. nóvember eftir landsliðsgluggann. Tindastóll heimsækir Grindavík í HS Orku-höllinni og Stjarnan fer austur á Egilsstaði til að mæta Hetti í MVA-höllinni.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -