Grindavík og Þór Akureyri mættust öðru sinni um helgina í 1. deild kvenna en fyrri leikurinn í gær endaði með öruggum sigri heimakvenna, 87-67. Fyrir þann leik voru liðin jöfn, þ.e. með jafnmörg töp og því kom kannski öruggur heimasigur aðeins á óvart.
Grindavík byrjaði leikinn í dag sömuleiðis vel og var fljótlega komið í 10 stiga forystu en þá er spurning hvort vanmat hafi gert vart við sig því áður en varði voru Þórsstelpur komnar yfir, 23-24 en Grindavík kom sér yfir með þristi Ingibjargar Jakobs en Þórsarar jöfnuðu með tveimur vítaskotum Sylvíu Rúnar sem tók netta „Helenu Sverris“ á þetta í fyrri leiknum í gær, var þá með 39 í framlag (27 stig, 18 fráköst, 7 stoðsendingar og 9 stolnir boltar!!)
Grindvíkingar bættu nýlega við Kana, Hannah Louise Cook og virðist hún smellpassa inn í leik liðsins og er alls ekki þessi týpíski kvennakani með ca helming framlag alls liðsins…. Undirritaður er einn þeirra sem hefur áhyggjur af kvennakörfunni ef þetta er það sem koma skal, þ.e. að íslenskir leikmenn skokki með og horfi á Kanann bera alla ábyrgð. Sú er alls ekki raunin hjá Jóhanni Árna þjálfara Grindavíkurliðsins og er alveg spurning hvort aðrir þjálfarar mættu taka hann sér til fyrirmyndar hvað þetta varðar. Reyndar lét þessi ágæta stelpa mig líta asnalega út í fyrri hálfleik m.v. þessi skrif því hún var ansi áberandi í tölfræðinni en mér til varnar þá gerðist það allt innan leik liðsins en sóknarleikurinn ekki fyrirfram teiknaður þannig að hún tæki öll skot. Hún var að frákasta mjög vel og var komin með 15 í hálfleik! Eins fann hún liðslfélaga sína oft opna þó svo að skotin væru ekki alltaf að detta.
Annar leikhlutinn var algerlega eign gulra og var það væntanlega varnarleiknum að þakka en Þórsarar náðu einungis að skora 4 stig á móti 20 stigum Grindvíkinga og staðan í hálfleik því 46-30. Eins og áður segir þá lét Hanna mig líta illa út og var komin með 31 í framlag af 69 framlagsstigum Grindavíkur J Hún var komin með 18 stig og 15 fráköst en hjá Þórsurum bar eins og í gær, lang mest á Sylvíu en hún var komin með 16 í framlag (af 30), með 12 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar.
Þriðji leikhluti var jafn og nokkuð ljóst að Grindavík myndi taka tvennuna þessa helgina. Þær bættu aðeins í forskotið og unnu leikhlutann 16-10 og leiddu því með 20 stigum fyrir lokafjórðunginn.
Munurinn hélt svo bara áfram að aukast og leikurinn endaði því með öruggum gulum sigri, 76-58.
Harðsnúna-Hanna lét mig já líta kjánalega út og ef þetta er það sem koma skal þá enda ég með stór asnaeyru og tala aldrei aftur við Jóhann Árna þjálfara…. J En eins og áður sagði, þá gerist allt í leik Hönnu innan leik liðsins, einfaldlega frábær liðsmaður hér á ferð. En hún endaði sem sagt með 43 í framlag (25 stig, 17 fráköst, 3 stoðsendingar og 5 stolna bolta.) Afgangi framlags skiptu allir leikmenn bróðurlega, já eða systurlega á milli sín, á ég þá líka við leikmenn sem byrjuðu á bekknum.
Hjá Þór var Sylvía hlutskörpust ef mið er tekið af framlagspunktum en var þó ekki eins áberandi eins og í gær en hún endaði með 21 (13 stig, 14 fráköst og 6 stoðsendingar). Hrefna Ottósdóttir fylgdi henni skammt á eftir í framlagi en var stigahæst með 26 stig og tók 6 fráköst (20 í framlag)
Næstu leikir þessara liða eru:
Þórsarar fá granna sína frá Sauðárkróki í heimsókn laugardaginn 9. mars kl. 14 og Grindavík leikur sama dag og aftur á heimavelli, á móti Hamri og byrjar sá leikur kl. 17:15.