spot_img
HomeBikarkeppniFlotskot frá himnum vinnur Meistara meistaranna fyrir Hauka

Flotskot frá himnum vinnur Meistara meistaranna fyrir Hauka

Í kvöld öttu bikarmeistarar síðasta árs í körfubolta kvenna kappi gegn Íslandsmeisturum síðasta árs í leiknum um titilinn “Meistari meistaranna. Það voru bikarmeistarar Hauka gegn Íslandsmeisturum Vals sem kepptu í þessum æsispennandi leik og var gaman að fá að sjá í hvað stefnir á komandi tímabili.

Nýir leikmenn

Bæði lið frumsýndu nýja leikmenn sem höfðu komið til félaganna fyrir tímabilið. Hjá Val má helst nefna Karinu Konstantinovu, landsliðsmann Búlgaríu, sem kom til liðsins frá Keflavík. Valur frumsýndi einnig nýjan þjálfara, Hjalta Vilhjálmsson, sem kemur til liðsins eftir nokkura ára törn sem þjálfari karlaliðs Keflavíkur. Haukaliðið frumsýndi nýja búninga ásamt því að endursýna tvo leikmenn sem koma aftur til liðsins. Það eru þær Þóra Kristín Jónsdóttir, sem kemur frá Falcon í Danmörku, og Rósa Björk Pétursdóttir sem snýr aftur til Hauka frá Breiðablik í Kópavogi.

Gangur leiksins

Liðin hefja leikinn á að skiptast á þriggja stiga körfum með samtals fimm í röð og héldu bæði lið áfram að spila og skora vel. Tvö stór blokk frá Haukum skiluðu tveimur skotklukkubrotum og hjálpuðu þeim að komast yfir. Enn hélt þriggjastigasýningin áfram og enduðu liðin með samtals 10 þrista, fimm hvort. Lokaskor eftir fyrsta leikhluta 19-23 fyrir Haukum.

Löngu skotin héldu áfram að hlaðast inn þar sem Sólrún Inga, Eydís Eva og Dagbjört Dögg röðuðu inn skotum af löngum færum fyrir sín lið, og voru það fimm stig í röð frá Dagbjörtu sem minnkuðu muninn í eitt stig og leikhlé hjá Haukum. Valur fór snemma í villuvandræði og Haukar komu muninum fljótlega í 6 stig. Skipst var á körfum út leikhlutann og var Valur alltaf að narta í hælana á Haukakonum. Ásta Júlía átti hörku fyrri hálfleik og lauk honum með 9 stig og 9 fráköst. Lokatölur annars leikhluta 38-40.

Valskonur hefja seinni hálfleik á þriggja stiga körfu sem laumar þeim einu stigi yfir í fyrstu sókn og Hildur Björg setur svo lauflétt sniðskot í körfuna stuttu seinna. Haukar virðast ekki geta keypt sér körfu fyrstu mínúturnar þangað til að Tinna Guðrún setur stökkskot af stuttu færi sem er svo svarað með risa þristi frá Söru Líf. Sólrún Inga skilar boltanum í netið og staðan jöfn 46-46 við miðbik leikhlutans. Haukarnir tóku sig til og komust mest 7 stigum yfir í leikhlutanum sem síðan endaði 53-58.

Fjórði og síðasti leikhlutinn byrjaði illa fyrir Haukakonur þar sem þær töpuðu boltanum 4 sinnum á fyrstu mínútu og tíu sekúndum hans. Útfrá þessum mistökum komust Valskonur fljótt yfir. Liðin skiptust á körfum lengi vel og virtist sem að Haukar voru búnar að koma Valskonum úr jafnvægi. Hjalti tók leikhlé fyrir Valskonur þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum og þær undir með þremur stigum. Með aðeins tvær sekúndur eftir af leiknum komst Hildur Björg á línuna og kom Valskonum yfir með einu stigi en það var Keira Robinson sem setti sigur-flotskotið á ögurstundu sem skilaði Haukum sigrinum og þar með titlinum Meistarar meistaranna.

Leikmenn leiksins

Hildur Björg átti góðan leik fyrir Valsara með 19 stig og 5 fráköst. En sannur leikmaður leiksins var Keira Robinson sem skoraði sigurkörfu leiksins, og náði þar með uppí 19 stig ásamt því að vera með 5 fráköst, 6 stoðsendingar og tvo stolna bolta.

Fréttir
- Auglýsing -