spot_img
HomeFréttirFlorida meistarar annað árið í röð

Florida meistarar annað árið í röð

12:16 

{mosimage}

(Billy Donavan hefur bikarinn á loft)

Florida Gators urðu í nótt fyrsta liðið í 15 ár til að vinna meistartitilinn í Bandaríska háskólaboltanum tvö ár í röð þegar þeir sigruðu lið Ohio State skólans 84-75. Jafnframt var þetta í fyrsta sinn í sögunni sem að lið vinnur þennan titil tvö ár í röð með sama byrjunarlið. 

Leikurinn í nótt var skemmtilegur en náði því þó aldrei að verða virkilega spennandi.  Florida liðið var alltaf skrefinu framar og hleyptu Ohio mönnum ekki of nálægt sér. 

Í hálfleik var staðan 40-29 fyrir Florida þar sem mestu munaði um góða nýtingu í 3ja stiga skotum en Florida setti niður 6 slík í fyrri hálfleik úr einungis 8 tilraunum Seinni hálfleikur var jafnari en munurinn varð þó aldrei minni en 7 stig og í hvert skipti sem Florida sáu Ohio nálgast gáfu þeir í og héldu þeim í þægilegri fjarlægð.

Það fór svo að lokum að Ohio náði þó að vinna seinni hálfleikinn með 2 stigum og endaði því leikurinn með 9 stiga sigri Florida. Lokatölur 84-75. 

Greg Oden átti virkilega gott kvöld í liði Ohio. Hann skoraði 25 stig, tók 12 fráköst og varði 4 skot. Florida liðið réði illa við hann varnarlega og lentu allir stóru menn liðsins í villuvandræðum við að berja á honum. Stórleikur Oden dugði þó skammt þar sem aðrir lykilmenn liðsins náðu sér ekki á strik nema þó helst  Mike Conley Jr. sem lék ágætlega, skoraði 20 stig og gaf 6 stoðsendingar en mikið af stigum hans komu þó í lok leiksins þegar leikurinn var í raun búinn. 

Þrátt fyrir að Oden virtist geta skorað að vild undir körfunni ákváðu leikmenn Ohio að taka 3ja stiga skot í tíma og ótíma þrátt fyrir að ekkert vildi ofan í hjá þeim. Þeir enduðu á að setja niður samtals 4 þrista en til þess þurfti 23 tilraunir og tveir þeirra komu alveg í lokin þegar úrslitin voru þegar ráðin. 

Hjá Florida dreifðist stigaskorið vel en það var Al Horford sem endaði stigahæstur með 18 stig auk þess sem hann tók 12 fráköst. Taurean Green skoraði 16 stig og Lee Humphrey 14. Eins og fyrr segir var Florida liðið að tryggja sér sinn annan titil á jafnmörgum árum sem er mikið afrek. 

Lykilleikmenn liðsins sýndu mikinn liðsanda í fyrra þegar þeir ákváðu að spila annað tímabil saman í Florida þrátt fyrir að hafa átt þess kost að fara í NBA deildina og sýndu svo í gærkvöldi að það borgaði sig. Billy Donovan, þjálfari liðsins lét svo hafa eftir sér að þrátt fyrir að þetta lið væri kannski ekki prýtt bestu einstaklingum sögunnar þá væri liðið sem slíkt eitt það allra besta. Hvað verður hjá þessum liðum næsta vetur er erfitt að segja. 

Hjá Florida er Billy Donovan þjálfari orðaður við Háskólann í Kentucky og að minnsta kosti 3 af 5 byrjunarmönnum munu væntanlega reyna fyrir sér í NBA. Hjá Ohio er auðvitað stóra spurningin hvað nýliðinn Greg Oden gerir en það er alveg ljóst að ef hann velur þann kost að fara í NBA nýliðavalið í sumar mun hann verða valinn fyrstur eða annar ásamt Kevin Durant, leikmanni Texas háskóla, sem var á dögunum útnefndur leikmaður ársins í Háskólaboltanum. 

Ron Lewis, bakvörður hjá Ohio hefur líka verið orðaður við NBA deildina og Mike Conley Jr. hefur verið að spila vel og gæti hugsanlega reynt fyrir sér í nýliðavalinu. 

[email protected]

Myndir/Photos/ AP

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -