spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaFlest tímabil og lengsta samfellda þátttaka félags í næstefstu deild karla 

Flest tímabil og lengsta samfellda þátttaka félags í næstefstu deild karla 

Á dögunum var Tómas Steindórsson gestur í ágætu hlaðvarpi Pavels Ermolinskij, Gaz. Hann var kallaður til sem sérfræðingur í keppninni í 1. deild karla. Í samtali þeirra sagðist Pavel hafa þá tilfinningu fyrir liðunum í 1. deildinni að þau væru þar ekki lengi í einu því helmingur liðanna næði því marki reglulega að komast upp í úrvalsdeildina en hin liðin féllu reglulega í 2. deild.

Út frá þessum vangaveltum spratt áhugaverð umræða. Tómas og Pavel (kannski var Helgi Magnússon líka með þeim, – ég man það ekki) fóru að velta því fyrir sér hvaða félag hefði verið lengst í deildinni og hvaða félag ætti lengstu óslitnu hrinuna í 1. deildinni. Þeir höfðu enga hugmynd um þetta. Mér fannst þetta áhugavert og langaði að komast að þessu. Því tók ég mig til að lagðist yfir gögn á vef KKÍ og tók saman þær upplýsingar sem þarf til að komast til botns í þessu máli. 

Vissulega hef ég efasemdir um að ég sé rétti maðurinn til þess að taka þessar upplýsingar saman og birta því ekki er ég sérstaklega fróður um körfubolta, hvorki um leikinn sjálfan né sögu hans. Undanfarin 8 ár eða svo hef ég þó fylgst náið með keppni í 1. deild karla og kvenna og á tveimur skeiðum ævinnar, á 10. áratug síðustu aldar, hafði ég augun svolítið á keppninni í 1. deild karla. En auðvitað skiptir þekkingin á leiknum eða sögunni ekki máli í þessu sambandi því hér eru það gögnin sem tala sínu máli sjálf.

Þekking mín á sameiningum félaga, nafnabreytingum þeirra og fleiru slíku nær ekki til allra landssvæða þótt víða hafi ég farið en þar sem ég þekki til hef ég tekið slíkt með í reikninginn. Saga Vestra í deildinni er t.a.m. ótvírætt samofin þátttöku KFÍ á Ísafirði og UMFB í Bolungavík.

Fyrstu mótin

Samkvæmt því sem lesa má úr gögnum á vef KKÍ var það árið 1981 sem deildarkeppni á vegum KKÍ í deild sem mætti kalla næstefstu deild karla hefst, – en það ár og sum önnur ár er hún er líka neðsta deildin. Þá var 14 liðum skipt upp í 4 riðla nokkurn veginn eftir landsfjórðungum. Leikið var um haustið 1981 og eftir áramótin 1982 í keppnishelga fyrirkomulagi (törneringum) eins og gert er í dag í yngri flokkum – liðin léku meira að segja stundum tvo leiki sama daginn. Af þeim liðum sem leika í 1. deild 2024-2025 tóku þátt í þessu móti Breiðablik, ÍA, Sindri og Þór Akureyri.

Önnur félög sem eiga sér langa sögu í deildinni, Höttur og KFÍ (eitt félaganna sem sameinaðist undir merkjum Vestra), sendu lið til keppni þetta fyrsta tímabil og þarna átti Tindastóll líka lið. Ég hef þetta tímabil með í talningunni hér þótt hér virðist hafa verið nokkur amatör-bragur á mótshaldinu og sjálfsagt hefur það sama átt við um þjálfun og ástundun keppendanna. Tímabilið á eftir er ekkert skráð um körfubolta í öðrum deildum en í efstu deild. Það er svo tímabilið 1983-1984 sem sagan hefst fyrir alvöru og keppni í deildinni hefur farið fram óslitið síðan. 

Fjöldi liða í deildinni

Fjöldi liða í deildinni hefur verið misjafn. Oftast hefur deildin verið 10 liða deild eða í 20 skipti af 44. Fæst hafa liðin í deildinni verið 6. Nú eru 12 lið í deildinni.

Lengsta viðverandi samfellda þátttakan í næstefstu deild af þeim 12 félögum sem nú eiga lið í deildinni

Af þeim félögum sem nú eiga lið sem leikur í 1. deildinni er Selfoss það félag sem leikið hefur lengst í deildinni óslitið eða í 9 tímabil í röð. Reyndar undir merkjum FSu tímabilin 2016-2017 og 2017-2018.

Selfoss 9 (Selfoss og FSu)

Sindri 7

Skallagrímur 6

Fjölnir 5

ÍA 4

Ármann 3

Þór 3

Snæfell 2

KFG 1

KV 1

Hamar 1

Breiðablik 1

Lengsta samfellda hrina félags í næstefstu deild karla frá upphafi

Af þeim liðum sem nú leika í deildinni hefur Hamar náð lengstu hrinunni í næstefstu deild, 12 tímabilum í röð, frá tímabilinu 2011-2012 til og með tímabilinu 2022-2023. 

Stúdentar (ÍS) hafa leikið í deildinni flest tímabil í röð. Það var á árunum 1989-2006 í 17 tímabil. 

ÍS 17 1989-2006

Höttur og ÚÍA 14 1987-2001

Hamar 12 2011-2023

Selfoss og Selfoss/Laugdælir* 10 1994-2004    

Selfoss og FSu 9 2016-2025

Höttur 9 2006-2015

Breiðablik 8 2010-2018

Þór Þorlákshöfn 8 1994-2002

Valur 8 2004-2011

* Sameiginlegt lið Selfoss og Laugdæla endaði tímabilið 2002-2003 í neðsta sæti deildarinnar en féll þó ekki niður í 2. deild – líklega vegna þess að sigurvegarar 2. deildarinnar hafa ekki tekið sætið sem var í boði. Selfoss var því með í keppninni tímabilið á eftir en lenti þá aftur í neðsta sæti. Að lið hafi hafnað í neðsta sæti keppninnar eitt tímabil en samt tekið sæti í deildinni árið á eftir hefur gerst af og til.  

Flest tímabil í næstefstu deild frá upphafi

Höttur hefur leikið flest keppnistímabil í næstefstu deild eða 31. Breiðablik og Selfoss koma fast á hæla Hattar með 28 tímabil.

Höttur 31 (Höttur og UÍA)

Breiðablik 28

Selfoss 28 (Selfoss, FSu, Selfoss/Laugdælir og HSK)

ÍA 21

Þór Akureyri 21

ÍS 21

Vestri 20 (Vestri, KFÍ og UMFB)

Skallagrímur 17 (Skallagrímur og UMSB)

Reynir Sandgerði 16

Hamar 16

Ármann 16 (Ármann og Ármann/Þróttur)

Valur 15 

Þór Þorákshöfn 14

Fjölnir 13

Snæfell 12

Stjarnan 11

Sindri 8

Laugdælir 7 (Laugdælir og Selfoss/Laugdælir)

ÍR 7

Hrunamenn 6

Leiknir 6

Tindastóll 5

Léttir 5

Álftanes 4

Grindavík 4

Víkverji 4

Stafholtstungur 4

ÍV 3

ÍG 3

Fram 3

ÍH 2

Augnablik 2

Þróttur Vogum 2

Drangur 2

Vængir Júpiters 1

KR 1

Keflavík 1

Keilufélag Reykjav. 1

Fylkir 1

FH 1

Gnúpverjar 1

Esjan 1

Víkingur Ól. 1

ÍME 1

Samv. Eiða** 1 

**Ekki er ljóst skv. gögnunum hvort liðið Samv. Eiða hafi mætt til leiks 1981-1982 því engin úrslit eru skráð í leikjum þess en félagið var þó skráð leiks.

Njarðvík alltaf meðal þeirra bestu

Á listanum yfir félögin sem hafa sent lið til keppni í næstefstu deild karla frá árinu 1981 má sjá 11 lið félaga sem nú leika í úrvalsdeildinni, þ.e. öll félögin nema Njarðvík.

Mjög langt er síðan Grindavík átti lið í deildinni. UMFG var þar síðast tímabilið 1986-1987. Keflavík var í deildinni tímabilið 1984-1985 eftir að hafa fallið úr 6 liða úrvalsdeild tímabilið á undan. KR lék í 1. deild tímabilð 2023-2024.

Yfirlestur

Eftir að samantektin var tilbúin renndi ég sjálfur aftur yfir upplýsingarnar til þess að leita að villum í skráningu minni. Ég fann fáeinar slíkar en enn kunna einhverjar villur að leynast í samantekinni, slíkt er nánast óumflýjanlegt.

Niðurstöðurnar ættu þó að gefa nokkuð rétta mynd af stöðunni og ég vona auðvitað að villurnar séu fáar og helst engar. Þeir sem áhuga hafa á geta fengið hjá mér Excel-skjalið mitt og yfrifarið það, breytt því og bætt það að vild.

Heimildir

www.kki.is

Nánar tiltekið: 

https://gamli.kki.is/mot/KKI

og

https://www.kki.is/motamal/leikir-og-urslit/motayfirlit/Deildir-flokkar?league_id=191

Með góðri kveðju og þökkum til allra sem standa að umfjöllun um íslenskan körfubolta, 

Karl Hallgrímsson,

körfuboltaáhugamaður og iðkendapabbi á Flúðum

Fréttir
- Auglýsing -