"Margir spurðu mig hvort það væri ekki gott að fá auðveldan leik í upphafi móts," sagði Chris Fleming, þjálfari þýska landsliðsins á blaðamannafundi eftir leik Þýskalands og Íslands á Eurobasket 2015. "Ég vissi hins vegar að það yrði ekki svo," bætti hann svo við.
Aðspurður hvort eitthvað hafi komið honum á óvart varðandi íslenska liðið sagði hann svo ekki vera. "Íslensku leikmennirnir eru harðjaxlar og vel þjálfaðir. Þið sáuð bara hvernig þeir komu til baka eftir erfiða byrjun. Mikill karakter í þessu liði að gefast ekki upp í fjórða hluta og gera þetta að leik."
Fleming var einnig spurður að því hvort hann hafi notað þennan leik til að prófa ný leikatriði og uppstillingar en hann svaraði því snögglega að íslenska liðið væri of gott til að vera með slíkar tilraunir.
Mynd: Chris Fleming (t.h) á æfingu með þýska liðinu (Skúli Sig)