spot_img
HomeFréttirFlaggskipið lagði Kormák í 3. deildinni

Flaggskipið lagði Kormák í 3. deildinni

Vestr-b, betur þekkt sem Flaggskipið, lék lokaleik sinn í 3. deildinni í gær á Hvammstanga á móti heimamönnum í Kormáki. Hvorugt liðið var á leiðinni í úrslitakeppnina í ár en engu síður lá heilmikið undir í leiknum þar sem Flaggskipið hafði aldrei tapað fyrir Kormáki frá því að liðin mættust fyrst árið 2015. Það var því heimamönnum mikið í mun að stöðva 6 leikja taphrinu sínu á móti Flaggskipinu en að sama skapi var það Vestramönnum mikið í mun að halda henni áfram enda hefði bílferðin heim eftir tap verið með versta móti.

Heimamenn í Kormáki höfðu frumkvæðið í leiknum framan af en þar fór fremstur Hlynur Rafn Rafnsson sem skoraði 10 af fyrstu 16 stigum liðsins. Í stöðunni 18-14 fyrir Kormák fór dísilvélin hjá Vestra loksins í gang og skoraði liðið 13 stig á móti 3 frá Kormáki á síðustu 3 mínútum fyrsta leikhluta og leiddi 21-27 í lok hans.

Dísivélin var hins vegar orðin ísköld í öðrum leikhluta enda skoruðu heimamenn fyrstu 9 stig leikhlutans. Vestramenn vöknuðu þó til lífsins og náðu forustunni fljótlega aftur og leiddu 41-42 í hálfleik.

Þriðja leikhluta verður best lýst sem algjöru andlegu gjaldþroti af hálfu leikmanna Vestra sem einbeittu sér til jafns að taka ótímabær og arfaslök skot ásamt því að tuða í dómurunum. Heimamenn gengu á lagið og náðu mest 11 stiga mun og leiddu í lok leikhlutans 60-51.

Í fjórða leikhluta sammældust Vestramenn um að fara í svæðisvörn þrátt fyrir að hafa verið vita vonlausir í henni í allan vetur. Það reyndist þó hárrétt ákvörðun því heimamenn áttu í stökustu erfiðleikum með að brjóta hana á bak aftur og enduðu sóknaraðgerðir þeirra yfirleitt í erfiðum skotum eða töpuðum boltum. Sóknarleikur Vestra hrökk hins vegar í gang með látum og setti Guðmundur Auðun Gunnarsson niður þrjár þriggja stiga körfur í upphafi leikhlutans og munurinn skyndilega orðinn 2 stig, 62-60. Stuttu seinna fékk Gunnlaugur Gunnlaugsson sína fimmtu villu þegar hann braut Hlyni í þriggja stigaskoti og fékk bekkurinn tæknivillu í kjölfarið fyrir mótmæli. Heimamenn gerðu sér lítið fyrir og settu niður öll fjögur vítaskotin og fengu boltann aftur en náðu þó ekki að skora og auka muninn. Þegar um þrjár mínútur voru eftir varði Hlynur sniðskot Vestra kröftulega við gífurleg fagnarlæti en sá fögnuður endaði snögglega því boltinn endaði beint í höndunum á Jóhanni Jakobi Friðrikssyni sem þakkaði pent fyrir sig með því að jarða niður þriggja stiga skoti. Helgi Snær Bergsteinsson nær forustunni fyrir Vestra í næstu sókn og Guðmundur og Daníel Þór Midgley toppa svo 12-0 áhlaup liðsins með sitthvorri körfunni og koma Vestra í 68-74. Á lokamínútunni minnkar Viktor Jóhannes Kristófersson muninn niður í 3 stig. Vestramenn klikka í næstu sókn á eftir en Kormákur kemst ekkert áleiðis gagnvart vörn Vestra og erfitt lokaskot þeirra hittir ekki körfuna. 74-71 sigur Flaggskipsins niðurstaðan.

Guðmundur Auðun Gunnarsson var bestur í liði Vestra með 34 stig og 8 þriggja stiga körfur, þar af 4 í fjórða leikhluta, en Gunnlaugur Gunnlaugsson kom næstur með 16 stig. Hinn 48 ára gamli nýliði Grímur Atlason átti líklegast sinn besta leik á sínum stutta meistaraflokksferli en hann skoraði 5 stig og lék allan fjórða leikhluta þar sem hann hirti fjölda frákasta.

Hjá Kormáki var Hlynur Rafn Rafnsson stigahæstur með 24 stig en Birkir Snær Gunnlaugsson var illviðráðanlegur undir körfunni og setti 19 stig.

Vestri-b
Guðmundur Auðun Gunnarsson – 34 stig, 8 þristar, 2/2 víti, 4 villur
Gunnlaugur Gunnlaugsson – 16 stig, 6/6 víti, 5 villur
Helgi Snær Bergsteinsson – 7 stig, 1 þristur, 0/1 víti, 4 villur
Stígur Berg Sophusson – 5 stig, 1 þristur, 2 villur
Grímur Atlason – 5 stig, 1/4 víti, 3 villur
Daníel Þór Midgley – 4 stig
Jóhann Jakob Friðriksson – 3 stig, 1 þristur, 4 villur
Sturla Stígsson – 1 villa

Kormákur
Hlynur Rafn Rafnsson 24 stig, 4 þristar, 4/4 víti, 3 villur
Birkir Snær Gunnlaugsson – 19 stig, 1 þristur, 2/4 víti
Elvar Logi Friðriksson – 10 stig, 2 þristar, 0/1 víti, 1 villa
Sveinn Óli Fiðriksson – 6 stig, 1 þristur, 1/2 víti, 4 villur
Ingibjörn Pálmar Gunnarsson – 5 stig, 1/2 víti
Viktor Jóhanness Kristófersson – 5 stig, 1 þristur, 2/2 víti, 1 villa
Einar Valur Gunnarsson – 1 stig, 1/1 víti
Guðmundur Hólmar Jónsson – 1 stig, 1/6 víti, 3 villur
Þorsteinn Jóhanness GUðmundsson, 0/2 víti, 1 villa

Fréttir
- Auglýsing -