Tindastóll tók á móti Hetti í landsbyggðarslag í Bónus deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Í síðustu umferð gerðu Stólar góða ferð í Smárann þar sem þeir lögðu Grindjána en Höttur tapaði illa fyrir Njarðvík fyrir austan.
Tindastólsmenn byrjuðu leikinn gríðarlega sterkt og komust í 11-0 í byrjun. Varnarleikur heimamanna var til háborinnar fyrirmyndar og Hattarmenn áttu í stökustu vandræðum með að finna skot á meðan heimamenn í Tindastól áttu greiðari leið að körfu gestanna. Gestirnir náðu smá spretti um miðjan annan leikhluta þar sem þeir settu nokkur stig án svars en annars var leikurinn í hreinni eigu Tindastóls sem setti 55 stig á töfluna í fyrri hálfleik en héldu gestunum í 30.
Stólar settu svo fyrstu 8 stigin í byrjun seinni hálfleiks og gerðu útum allar vonir sem Hattarmenn kynnu að hafa átt, staðan orðin 63-30 og bara formsatriði að klára leikinn. Fyrirfram hafði verið búist við hörkuleik eins og oftast þegar þessi lið mætast en það var bara annað liðið tilbúið í slaginn í kvöld. Lokatölur 99-59 og stóran hluta af leiknum voru 4-5 Skagfirðingar inni á vellinum sem gladdi heimamenn í Síkinu auðvitað mjög.
Allir leikmenn í hóp Stóla fengu mínútur í kvöld og 9 þeirra settu stig á töfluna. Giannis endaði stigahæstur með 22 stig, Geks 18 og Pétur(14) og Hannes (12) settu 26 stig af bekknum. Arnar Björnsson átti köflóttan leik, tapaði 7 boltum en bætti það upp með 9 fráköstum og 2 stolnum auk 6 stiga. Í döpru liði gestanna var Obi Trotter stigahæstur með 15 stig.
Umfjöllun / Hjalti Árna