spot_img
HomeFréttirFjórir leikir í IE karla í kvöld

Fjórir leikir í IE karla í kvöld

14:56 

{mosimage}

 

 

Átjánda umferð Iceland Express deildar karla hefst í kvöld með fjórum leikjum. Allir hefjast leikirnir kl. 19:15. Stórleikur kvöldsins er vafalaust rimma KR og Bikarmeistara ÍR en þetta er fyrsti leikur þeirra bláu síðan þeir fögnuðu glæstum bikarsigri sínum um helgina og fróðlegt verður að sjá hvernig þeir koma undan bikarhelginni góðu. Hver spennuleikurinn rekur annan í kvöld svo körfuknattleiksáhangendur ættu að fjölmenna í húsin.

 

Leikur KR og ÍR fer fram í DHL-Höllinni í Vesturbænum en fyrri viðureign liðanna fór fram í Seljaskóla og þar hafði KR betur 66-81. KR-ingar hafa aðeins tapað einum leik á heimavelli í deildinni í vetur en það var gegn Skallagrím (81-88) þann 26. október. ÍR-ingar hafa aðeins unnið tvo útileiki í vetur og freista þess að landa sínum þriðja útisigri í deildinni en það gæti reynst torsótt þar sem KR eru hvað sterkastir heimafyrir.

 

Mikilvægið í leik Fjölnis og Þórs Þorlákshafnar þarf vart að tíunda en liðin mætast í Grafarvogi í kvöld. Fjölnir er á botninum með sex stig og Þór þar í næsta sæti fyrir ofan með 8 stig. Spennan var í algleymingi þegar liðin áttust síðast við þar sem framlengja þurfti leik liðanna. Þórsarar höfðu að lokum sigur 97-95 en staðan að loknum venjulegum leiktíma var 89-89. Gera má ráð fyrir kröftugum og spennandi leik í Grafarvogi í kvöld þar sem hvorugt liðið má við því að tapa stigum.

 

Í Stykkishólmi mætast Snæfell og Hamar/Selfoss. Til samanburðar má þess geta að Keflavíkurkonur, silfurlið bikarúrslitanna, töpuðu sínum fyrsta leik eftir bikarhelgina en í kvöld er fyrsti leikur H/S eftir naumt tap gegn ÍR í bikarúrslitum. Snæfellingar eru sterkir heimafyrir og ætli H/S að stela stigum í Hólminum verða þeir að koma silfrinu úr huga sér. Síðast þegar liðin mættust voru það Snæfellingar sem höfðu tveggja stiga sigur, 77-79 í Fjósinu. Keflavík sækir fast á hæla Snæfellinga í deildinni og Geof Kotila, þjálfari Snæfells, vill örugglega ekki missa úr greipum sér heimavallarréttinn í úrslitakeppninni.

 

Í Grindavík mætast heimamenn og Tindastóll en eins og sakir standa eru Stólarnir inni í úrslitakeppninni en ekki má mikið út af bregða hjá þeim svo þeir missi af henni eða einfaldlega lendi í fallbaráttunni. Sex stigum munar á Grindavík og Tindastól en þeir gulu hafa verið að finna fjölina að undanförnu og lönduðu góðum sigri í Hveragerði á dögunum. Stólarnir lágu gegn Skallagrím í síðasta leik svo það gæti orðið flottur leikur í Röstinni í kvöld.

 

Staðan í deildinni

Plakat af www.kr.is/karfa

Fréttir
- Auglýsing -