spot_img
HomeFréttirFjórfaldar tvennur á Íslandi

Fjórfaldar tvennur á Íslandi

Jordan Danberry, leikmaður Aþenu í 1. deild kvenna, komst í sögubækurnar í risa sigri Aþenu á ÍR í gær en hún endaði leikinn með fjórfalda tvennu eða 40 stig, 13 fráköst, 12 stoðsendingar og 17 stolna bolta.

Fjórföld tvenna er sjaldgæft afrek í körfubolta en eins og nafnið gefur til kynna er það þegar leikmaður nær tveggja stafa tölu í fjórum af eftirfarandi fimm tölfræðiþáttum: stigum, fráköstum, stoðsendingum, vörðum skotum og stolnum boltum.

Danberry er þó ekki ein um að hafa náð þessu afreki á Íslandi en fimm leikmenn hafa náð þessu afreki í leik á milli liða úr efstu deild í deild-, bikar- eða úrslitakeppni.

Dags.NafnDeildFyrirMótiStigFrák.Stoð.Stol.
15.10.96Penny PeppasÚrvalsd. kvkGrindavíkÍR52161110
16.03.00Brenton BirminghamÚrslitakeppni kkGrindavíkKeflavík17141010
17.04.01Brenton BirminghamÚrslitakeppni kkNjarðvíkTindastóll28101110
10.11.05Reshea BristolÚrvalsd. kvkKeflavíkGrindavík30161010
25.09.09Heather EzellPoweradebikar kvkHaukarNjarðvík24131010
09.01.10Heather EzellÚrvalsd. kvkHaukarValur25151110
03.12.17Kristen McCarthyÚrvalsd. kvkSnæfellNjarðvík31151012

Brautryðjandinn Penny Peppas var ekki bara fyrsti erlendi atvinnumaðurinn í efstu deild kvenna heldur á hún einnig fyrstu þekktu fernuna hér á landi og jafnframt þá svakalegustu. 52 stig, 16 fráköst, 11 stoðsendingar og 10 fráköst.

Brenton Birmingham fylgdi á eftir í byrjun aldarinnar með tveimur fernum á ekki minna sviði en úrslitakeppnunum 2000 og 2001. Reshea Bristol náði svo einni í Úrvalsdeild kvenna haustið 2005.

Heather Ezell byrjaði ferill sinn á Íslandi með látum en hún náði fernu í sínum fyrst leik hér á landi í Powerade-bikar kvenna haustið 2009. Hún bætti svo við einni fernu í janúar 2010.

Besta íslenska körfuboltakonan fyrr og síðar, Helena Sverrisdóttir, var með fjórfalda tvennu að meðaltali í leik fyrir Hauka veturinn 2003-2004 í 2. deild kvenna (nú 1. deild kvenna). Í 16 leikjum náði hún sex fernum og var með 37,6 stig, 13,3 fráköst, 11,6 stoðsendingar og 10,2 stolna bolta að meðaltali í leik.

Sylvía Rún Hálfdánardóttir, þáverandi leikmaður Þórs á Akureyri, átti síðustu fernuna hér á landi á undan Danberry en í janúar 2019 var hún með 11 stig, 13 fráköst, 10 stoðsendingar og 10 stolna bolta í sigri á Njarðvík í 1. deild kvenna.

Fréttir
- Auglýsing -