Jordan Danberry, leikmaður Aþenu í 1. deild kvenna, komst í sögubækurnar í risa sigri Aþenu á ÍR í gær en hún endaði leikinn með fjórfalda tvennu eða 40 stig, 13 fráköst, 12 stoðsendingar og 17 stolna bolta.
Fjórföld tvenna er sjaldgæft afrek í körfubolta en eins og nafnið gefur til kynna er það þegar leikmaður nær tveggja stafa tölu í fjórum af eftirfarandi fimm tölfræðiþáttum: stigum, fráköstum, stoðsendingum, vörðum skotum og stolnum boltum.
Danberry er þó ekki ein um að hafa náð þessu afreki á Íslandi en fjórir leikmenn hafa náð þessu afreki í leik á milli liða úr efstu deild í deild-, bikar- eða úrslitakeppni.
Dags. | Nafn | Deild | Fyrir | Móti | Stig | Frák. | Stoð. | Stol. |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|
15.10.96 | Penny Peppas | Úrvalsd. kvk | Grindavík | ÍR | 52 | 16 | 11 | 10 |
16.03.00 | Brenton Birmingham | Úrslitakeppni kk | Grindavík | Keflavík | 17 | 14 | 10 | 10 |
17.04.01 | Brenton Birmingham | Úrslitakeppni kk | Njarðvík | Tindastóll | 28 | 10 | 11 | 10 |
10.11.05 | Reshea Bristol | Úrvalsd. kvk | Keflavík | Grindavík | 30 | 16 | 10 | 10 |
25.09.09 | Heather Ezell | Poweradebikar kvk | Haukar | Njarðvík | 24 | 13 | 10 | 10 |
09.01.10 | Heather Ezell | Úrvalsd. kvk | Haukar | Valur | 25 | 15 | 11 | 10 |
Brautryðjandinn Penny Peppas var ekki bara fyrsti erlendi atvinnumaðurinn í efstu deild kvenna heldur á hún einnig fyrstu þekktu fernuna hér á landi og jafnframt þá svakalegustu. 52 stig, 16 fráköst, 11 stoðsendingar og 10 fráköst.
Brenton Birmingham fylgdi á eftir í byrjun aldarinnar með tveimur fernum á ekki minna sviði en úrslitakeppnunum 2000 og 2001. Reshea Bristol náði svo einni í Úrvalsdeild kvenna haustið 2005.
Heather Ezell byrjaði ferill sinn á Íslandi með látum en hún náði fernu í sínum fyrst leik hér á landi í Powerade-bikar kvenna haustið 2009. Hún bætti svo við einni fernu í janúar 2010.
Besta íslenska körfuboltakonan fyrr og síðar, Helena Sverrisdóttir, var með fjórfalda tvennu að meðaltali í leik fyrir Hauka veturinn 2003-2004 í 2. deild kvenna (nú 1. deild kvenna). Í 16 leikjum náði hún sex fernum og var með 37,6 stig, 13,3 fráköst, 11,6 stoðsendingar og 10,2 stolna bolta að meðaltali í leik.
Sylvía Rún Hálfdánardóttir, þáverandi leikmaður Þórs á Akureyri, átti síðustu fernuna hér á landi á undan Danberry en í janúar 2019 var hún með 11 stig, 13 fráköst, 10 stoðsendingar og 10 stolna bolta í sigri á Njarðvík í 1. deild kvenna.