spot_img
HomeFréttirFjórði bikartitill Hauka í hús

Fjórði bikartitill Hauka í hús

18:50

{mosimage}

 

 

Haukakonur eru Lýsingarbikarmeistarar eftir frækinn 78-77 sigur á Keflavík. Leikurinn fór fram í Laugardalshöll þar sem stemmningin var frábær og eins og í sönnum bikarúrslitaleik réðust úrslitin ekki fyrr en á síðustu stundu. TaKesha Watson gat tryggt Keflavík inn í framlengingu á vítalínunni en henni brást bogalistin úr fyrra vítaskotinu þegar ein sekúnda var til leiksloka. Haukar höfðu því sigur en leikurinn var frábær skemmtun.

  

Haukar gerðu fyrstu sex stig leiksins áður en Bryndís Guðmundsdóttir minnkaði muninn í 6-2 fyrir Keflavík. Keflavíkurkonur voru fljótar að jafna sig á góðri Haukabyrjun og náðu að jafna metin í 10-10 með körfu frá TaKeshu Watson. Það sem eftir lifði leikhlutans skiptust liðin á því að hafa foyrstu en Bryndís Guðmundsdóttir, sem átti svakalegan fyrsta leikhluta, kom Keflavík í 26-24 með flautukörfu í lok leikhlutans.

 

Í öðrum leikhluta var hið sama uppi á teninginum. Liðin börðust af krafti og skoruðu á víxl. Haukar pressuðu á Keflavík eftir skoraðar körfur og uppskáru annað veifið boltann í kjölfarið. María Ben Erlingsdóttir fékk sína þriðju villu í liði Keflavíkur þegar leikhlutinn var hálfnaður og var hvíld í kjölfarið. Sigrún Ámundadóttir kom Haukum í 36-35 með þriggja stiga körfu en Marín Karlsdóttir jók muninn í 36-38 fyrir Keflavík með annarri þriggja stiga körfu. Það var svo Ifeoma Okonkwo sem gerði loka körfu leikhlutans og breytti stöðunni í 43-42 fyrir Hauka þegar liðin gengu til hálfleiks.

 

Haukar skiptu í 2-3 svæðisvörn í síðari hálfleik og hægði það nokkuð á leiknum en liðin voru engu að síður hnífjöfn. TaKesha jafnaði leikinn í 50-50 og skömmu síðar var dæmd tæknivilla á bekkinn hjá Keflavík fyrir mótmæli við dómara. Það virtist engin áhrif hafa á Keflvíkinga sem bara hertu róðurinn. Þegar rúmar 3 mínútur voru til loka þriðja leikhluta fékk María Ben sína fjórðu villu og þurfti frá að víkja og staðan 58-58. Liðin skoruðu sín hvor 2 stigin til viðbótar og staðan því 60-60 fyrir lokaleikhlutann.

 

Gríðarleg spenna var í Laugardalshöll í dag og voru mikil læti á pöllunum þegar fjórði leikhluti hófst. Haukar sigu lítið eitt fram úr með góðri vörn. Pálína Gunnlaugsdóttir fékk sína fjórðu villu og þurfti því að fara sér hægt í Haukaliðinu. Þegar skammt var til leiksloka þá jafnaði Bryndís Guðmundsdóttir leikinn í 74-74 með miklu harðfylgi. Haukar héldu í sókn en tókst ekki að skora. Í næstu Keflavíkursókn var það Pálína Gunnlaugsdóttir sem stal boltanum fyrir Hauka, brunaði upp völlinn, skoraði úr sniðskotinu og fékk villu að auki. Pálína brenndi af vítinu og staðan því 76-74 Haukum í vil og aðeins nokkrar sekúndur til leiksloka.

 

{mosimage}

 

Spennan var í algleymingi, ein sekúnda var til leiksloka og staðan þannig að TaKesha Watson gat jafnað leikinn í 78-78 með því að hitta úr báðum vítaskotunum því brotið hafði verið á henni og Keflavík komið með skotrétt. Fyrra vítið reið af hjá Watson og boltinn skoppaði af hringnum og í burtu og allt trylltist í Haukastúkunni. Watson setti niður síðara vítið og staðan því 78-77 Haukum í vil. Haukar tóku inn boltann og þessi eina sekúnda breyttist fljótt í lokaflautu leiksins og Haukar fögnuðu því Lýsingarbikartitli sínum.

Ifeoma Okonkwo gerði 24 stig og tók 10 fráköst í liði Hauka. Næst henni var Helena Sverrisdóttir með 23 stig og 14 fráköst en þær stöllurnar áttu flottan dag í Haukaliðinu.

 

Hjá Keflavík var TaKesha Watson með 19 stig og María Ben 18 en Watson gat ekki leynt vonbrigðum sínum í leikslok því hún hefði getað tryggt Keflavík framlengingu í leiknum.

 

Glæsilegur sigur hjá Haukum í hreint út sagt frábærum bikarleik sem minnst verður lengi vel. Fjölmenni á pöllunum og hnífjafn leikur allt til leiksloka.

 

Gangur leiksins

 

6-2,15-14,24-26

27-32,36-35,43-42

48-45,56-56,60-60

70-67,74-74,78-77

 

Tölfræði leiksins

 

www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -