Föstudagskvöldið 21. desember nk munu leiða saman hesta sína lið UMFN og úrvalsliðs Njarðvíkinga. Leikurinn hefst klukkan 20:00 og mun allur ágóði af leiknum renna til Líknarsjóðs Njarðvíkurkirkna. Aðgangseyrir á leikinn er 1000 krónur fyrir fullorðna og 500 krónur fyrir börn auk þess sem fólk getur styrkt gott málefni með frjálsum framlögum. Það vantar ekki bomburnar í þetta verkefni en Jeb Ivey mun sýna sig í Ljónagryfjunni sem og Logi Gunnarsson. Við ræddum við Friðrik Ragnarsson formann KKD UMFN til að fræðast nánar um málið.
,,Góðgerðaleikurinn verður til styrktar Líknarsjóðum Njarðvíkurkirkna og nú þegar hefur Hagkaup ákvekið að styrkja málefnið um 100.000 kr. og við vonum að fleiri fyrirtæki bætist í hópinn. Liðið sem mætir Njarðvík er skipað fyrrverandi leikmönnum liðsins sem ennþá eru að spila og einnig verða þrír leikmenn á besta aldri með liðinu, þ.e ég sjálfur, Teitur og Ísak Tómasson,” sagði Friðrik en það verður valinn maður í hverju rúmi.
,,Miðaverði verður stillt í hóf eða 1000 kr og mun allur ágóði renna til málefnisins. Þjálafarar okkar liðs verða Gunnar Þorvarðarson og Friðrik Ingi Rúnarsson. Kristján Möller og Sigmundur Herbertsson munu dæma leikinn ásamt því að Kristbjörn Albertsson verður eftirlitsdómari. Doddi litli verður kynnir á leiknum, þannig að það eru ,,orginalar” sem koma að öllum þætti leiksins. Landsliðið verður á ritaraborði þ.e Ingvi Steinn, Grétar og Aggi Poe. Okkur fannst tilvalið að félagið léti gott af sér leiða með þessum góðgerðarleik, ásamt því að gefa fólki kost á að sjá flotta körfuboltaveislu. Þess má geta að Jeb Ivey, Logi Gunnars, Gummi Jóns, Jói Óla og Rúnar Ingi hafa fengið leyfi frá sínum félögum til að spila leikinn og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Einnig munu Brenton, Palli, Egill og Daníel spila leikinn,” sagði Friðrik og ljóst að það verður fjör í Ljónagryfjunni á föstudag.
Nánar má lesa um þetta skemmtilega uppátæki Njarðvíkinga með því að smella hér.