Þórsarar biðu lægri hlut fyrir Fjölni 43-65 í 1. deild kvenna í körfuknattleik. Gestirnir frá Grafarvogi byrjuðu leikinn mun betur en heimamenn og náðu fljótt þægilegu forskoti. Gestirnir létu aldrei forskotið af hendi og innbyrgðu öruggan sigur, 43-65 og eru því enn taplausar í deildinni.
Gestirnir frá Grafarvoginum byrjuðu leikinn af miklu krafti og fóru strax að pressa á heimamenn. Það tók heimamenn smá tíma að ná áttum og eftir nokkra mínútna leik voru gestirnir komnir með gott forskot 4-15. Baldur Ingi þjálfari Þórs brá á það ráð að skipta yfir í svæðisvörn. Sú beyting virtist skila sér og heimamenn náðu að loka betur á gestina. Petra Frímansdóttir kom mjög sterk af bekknum hjá heimamönnum og setti niður sex stig og náðu heimamenn því að minnka munin niður í 7 stig, 12-19 áður en leikhlutanum lauk. Fjölnir byrjuðu annan leikinn eins og þær byrjuðu fyrsta leikhlutann. Þær náðu að keyra aðeins upp hraðann sem og voru duglegar að láta knöttinn ganga sín á milli sem skapaði nokkur opin skot. Aftur á móti gekk voða fátt í leik heimamanna. Sama hvað heimamenn reyndu, þá gekk erfiðlega að koma knettinum ofan í körfuna og má segja að heppnin hafi ekki verið á bandi heimamanna. Gestirnir héldu áfram að spila sinn leik og þegar flautað var til hálfleiks voru gestirnir komnir með 13 stiga forskot, 23-36.
Síðari hálfleikur byrjaði mjög rólega. Bæði lið áttu í mestu basli með að koma knettinum ofan í. Þegar þriðji fjórðungur var kominn meir en hálfnaður höfðu heimamenn aðeins náð að skora eitt stig en gestirnir fjögur. Leikmenn liðanna náðu þó undir lok þriðjaleikhluta að finna leiðina að körfunni en gestirnir leiddu þó leikinn með 15 stigum, 31 – 46 og fátt virtist ætla að koma í veg fyrir sigur gestanna. Heimamenn byrjuðu fjórða leikhluta nokkuð vel og með góða maður á mann vörn náðu þær að minnka forskot gestanna aðeins. Gestirnir náðu þó að halda ró sinni og náðu góðum spretti undir lok leiksins og sigldu öruggum 43-65 sigri í höfn.
Sölmundur Karl Pálsson
Mynd: Rúnar Haukur Ingimarsson – www.runing.com/karfan