spot_img
HomeFréttirFjölnissigur í Vodafonehöllinni

Fjölnissigur í Vodafonehöllinni

Fjölnir gerði í kvöld góða ferð í Vodafonehöllina í Iceland Express deild kvenna þegar Grafarvogskonur nældu sér í tvö stig með 62-67 sigri gegn Val. Um jafnan leik var að ræða en á lokasprettinum héldu Fjölniskonur spilunum þétt að sér og unnu sanngjarnan sigur. Þrátt fyrir sigurinn er Fjölnir enn í 7. sæti deildarinnar en hefur nú brúað forskot Valskvenna niður í tvö stig sem eru sæti ofar en Fjölnir með 12 stig.
Í síðustu deildarviðureign liðanna í Vodafonehöllinni mættu Valskonur með box-1 varnarafbrigði sem gaf vel gegn Brittney Jones og hennar miklu sóknarhæfileikum. Annað var uppi á teningnum í kvöld, Valur beitti 2-2-1 svæðispressu þó ekki alveg á fullan völl en Fjölniskonur leystu hana vel með Jones í broddi fylkingar.
 
Melissa Leichlitner kórónaði góða byrjun Vals með þrist sem kom Hlíðarendakonum í 7-0. Hægt og bítandi jöfnuðu gestirnir sig en Valur lokaði fyrsta leikhluta með 6-0 áhlaupi og leiddu 19-10 að honum loknum.
 
Varnarleikur Fjölnis þéttist til muna í öðrum leikhluta og Valskonur áttu í mesta basli með að skora. Á meðan smokraði Fjölnir sér nær Valsliðinu og komst loks yfir 27-29 og leiddu þannig í hálfleik og unnu því annan leikhluta 8-19.
 
Valur mætti grimmari til leiks í síðari hálfleik og náðu 36-33 forskoti en liðin skiptust þá á forystunni. Guðbjörg Sverrisdóttir var drjúg í liði Vals í síðari hálfleik, jafnaði leikinn í 40-40 með fjórum stigum í röð fyrir Valskonur en Fjölnir átti lokaorðið í leikhlutanum og leiddu 46-49 að honum loknum.
 
Strax í upphafi fjórða leikhluta benti allt til þess að Fjölniskonur ætluðu að gera út um leikinn, náðu strax 46-54 forskoti eftir þriggja stiga körfu frá Birnu Eiríksdóttur. Við þetta bætti Valur þó við sig snúningi og náðu að minnka muninn í 51-54. Valur var aldrei langt undan en Fjölniskonur héldu rétt á spilunum, tóku langar sóknir á lokasprettinum og leyfðu ekki mikið í vörninni og uppskáru því sanngjarnan 62-67 sigur.
 
Brittney Jones fór fyrir Fjölni í kvöld með 26 stig og 7 stoðsendingar, Katina Mandylaris bætti við myndarlegri tvennu með 21 stig og 21 frákast og þá var Birna Eiríksdóttir með 9 stig. Hjá Valskonum voru fjórir leikmenn með 10 stig en það voru þær Guðbjörg Sverrisdóttir, Melissa Leichlitner, Kristrún Sigurjónsdóttir og María Ben Erlingsdóttir en Guðbjörg var auk þess með 7 stolna bolta í leiknum.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -