Fjölnir lagði Stjörnuna í kvöld í úrslitaleik VÍS bikarkeppninnar í stúlknaflokki, 72-70.
Fyrir leik
Gengi liðanna í deild í vetur nokkuð ólíkt. Bæði lið í efsta riðil, en Fjölnir í fyrsta sætinu með 20 stig á meðan að Stjarnan er í 4. sætinu með 10 stig.
Gangur leiks
Eftir ágætis upphafsmínútur missir Stjarnan gjörsamlega tökin á Fjölni í seinni hluta fyrsta fjórðungs og er munurinn 15 stig að honum loknum, 28-12. Með góðu áhlaupi undir lok fyrri hálfleiksins nær Stjarnan að vinna sig aftur inn í leikinn og hrifsa forystuna af Fjölni, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er leikurinn þó í járnum, 39-40 fyrir Stjörnunni.
Stigahæst Fjölnisstúlkna í fyrri hálfleiknum var Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir með 19 stig á meðan að fyrir Stjörnuna var Dilja Ögn Lárusdóttir með 16 stig.
Stjarnan nær að vera með yfirhöndina í upphafi seinni hálfleiksins. Eftir agalegan fyrsta leikhluta varnarlega, ná þær að halda Fjölni í 11 stigum í öðrum og svo 15 stigum í þeim þriðja og eru áfram yfir fyrir lokaleikhlutann, 53-58. Leikurinn er svo í járnum allt fram á lokamínúturnar, en þá nær Fjölnir að vera skrefinu á undan með nokkrum körfum frá Emmu Sóldísi Svan Hjördísardóttur og Emmu Hrönn Hákonardóttur. Stjarnan fær reyndar álitlegt tækifæri til þess að jafna eða komast yfir í lokasókn sinni, en allt kemur fyrir ekki. Fjölnir sigrar að lokum með 2 stigum, 72-70.
Atkvæðamestar
Atkvæðamestar fyrir Fjölni í leiknum voru Heiður Karlsdóttir með 12 stig, 15 fráköst og Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir með 27 stig, 13 fráköst og 5 stoðsendingar.
Fyrir Stjörnuna var Ísold Sævarsdóttir atkvæðamest með 14 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar. Þá bætti Diljá Ögn Lárusdóttir við 22 stigum og 7 fráköstum.
Myndasafn (Bára Dröfn)