KR og Fjölnir mættust í kvöld í annarri viðureign liðanna í Dominosdeild kvenna á tímabilinu 2020-2021. Leikurinn var jafn framan af og spennandi en í seinni hálfleik misstu KR-ingar öll tök á leiknum og töpuðu með 29 stigum, 67-96.
Fyrir leikinn
KR-ingar þurftu á sigri að halda til að heltast ekki meira úr lestinni í baráttunni um að halda sér uppi í deild þeirra bestu á Íslandi.
Fjölnisstúlkur vildu halda sér í efstu fjóru sætunum sem þær gátu gert með því að vinna í kvöld og þannig halda Skallagrímskonum fyrir neðan sig í stigatöflunni.
KR vantaði Gunnhildi Atladóttur, en hún er í fjarnámi í bandarískum háskóla alltaf á miðvikudagskvöldum. Það hlýtur að teljast einkar óhentugt fyrir leikmann í úrvalsdeild kvenna þar sem langflestir leikir deildarinnar eru einmitt á því kvöldi.
Gangur leiksins
KR fipaði Fjölni á fyrstu mínútunum með 3-2 svæðisvörn sinni en gestirnir voru fljótir að finna fjölina sína. Eftir 6-0 byrjun hjá heimastúlkum fékk KR 14 stig á sig og þær svart- og hvítklæddu gátu aðeins svarað með einni körfu á móti.
Áhlaupaleikurinn snerist við eftir leikhlé KR á 5. mínútu fyrsta leikhlutans. Þær komu til baka með 13-2 áhlaup á rúmum tveim mínútum svo Halldór Karl, þjálfari Fjölnis, sá sig þá tilneyddan til að taka sitt eigið leikhlé. Það skilaði hins vegar ekki nægilega miklu og KR leiddi eftir 10 mínútur með fimm stigum, 31-26.
Það hægðist aðeins á liðunum í öðrum leikhlutanum og það hentaði Fjölni betur en heimastúlkum. Grafarvogsliðið náði að teygja aðeins á vörn KR og jafna leikinn meðan KR-ingar fundu ekki hringinn í þó nokkrum sóknum.
Lina Pikciuté lét finna fyrir sér í vörninni og varði fjögur skot í öðrum leikhlutanum svo erfitt var fyrir KR-inga að skora. Fjölnir gekk á lagið og þar sem þjálfari KR, Mike Denzel, hafði nýtt bæði leikhlé sín í fyrsta leikhlutanum þá gat hann lítið gert til að stöðva áhlaup gulklæddu gestanna seinustu mínútur fyrri hálfleiksins.
Fjölnir lokaði fyrri hálfleiknum með 15-2 áhlaupi síðustu fimm mínúturnar og staðan var því 40-49 þegar hálfleiksflautan gall. Svo virtist sem Taryn Ashley McCutcheon mætti ekki fara út af, enda misstu KR-ingar Fjölni frá sér í hvert sinn sem hún fór út af.
KR áttu góðan kafla í byrjun seinni hálfleiks og voru aðeins fjórum stigum frá Fjölni. Þá misstu þær skyndilega taktinn í sóknum sínum og Fjölnir náði að breikka bilið enn á ný.
Heimastúlkur tóku aftur aðeins við sér en skaðinn frá því í miðjum þriðja leikhlutanum var skeður. KR tapaði þriðja fjórðungnum með einu stigi og þurftu því að saxa niður tíu stiga mun til að vinna. Staðan 57-67 með 10 mínútur eftir.
Fjórði leikhlutinn var ekki glæsilegur hjá Vesturbæjarliðinu sem átti áfram erfitt með að skora meðan það sama gilti ekki hjá gestunum.
Leikar hertust eftir því sem lokakaflinn nálgaðist og enn gátu KR-ingar ekki minnkað muninn. Að lokum skipti þjálfari KR varamannabekknum inn á seinustu tvær mínúturnar og þjálfari Fjölnis gerði slíkt hið sama. Lokaleikhlutinn fór 10-29 fyrir þeim gulklæddu og leiknum lauk því 67-96.
Lykillinn
Lykillinn að sigri Fjölnis var Ariel Hearn að öðrum ólöstuðum, en hún skoraði 18 stig, tók 16 fráköst og gaf 12 stoðsendingar og var því með þrefalda tvennu. Þar að auki stal hún 5 boltum og endaði með 38 framlagspunkta í leiknum. Sara Djassi var sömuleiðis góð með 20 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar.
Hjá KR voru þær Annika Holopainen og Taryn Ashley McCutcheon góðar en hefðu þurft að vera betri. Annika var stigahæst allra í leiknum með 26 stig og bar uppi sóknarleik síns liðs á löngum köflum í fyrri hálfleik. Taryn var sömuleiðis mjög mikilvæg, en KR-ingar áttu í miklu basli með að koma sóknum sínum af stað þegar hún var á bekknum. Hún lauk leik með 17 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar.
Áhugaverð tölfræði
Það vakti athygli að þrátt fyrir að Annika og Taryn skoruðu mest fyrir KR þá var einn leikmaður sem kom af bekknum og breytti miklu fyrir Vesturbæjarliðið.
Unnur Tara Jónsdóttir skoraði aðeins 10 stig í leiknum en hún var eini leikmaður KR sem hafði jákvæða plús/mínus-tölfræði. Þær tæpu 20 mínútur sem hún var inn á í leiknum unnust með 15 stigum! Kannski ekki skrítið að hún sé fyrrverandi landsliðskona.
Kjarninn
Fjölnir vann leikinn með góðu framlagi frá flestum leikmönnum síns liðs. Þær áttu eilítið erfitt með svæðisvörn KR-inga framan af en eftir því sem leið á leikinn náðu þær að skipta um taktík þannig að leikurinn breyttist þeim í vil. Stærsti þátturinn þar var að takmarka erlenda leikmenn KR.
KR vinnur ekki leiki nema allar í liðinu eigi góðan leik og það gerðist ekki í kvöld. Annika og Taryn voru ágætar en fengu ekki nægilega góðan stuðning frá sínum liðsfélögum og því fór sem fór.
Fjölnisstúlkur halda þá í fjórða sætið og eiga næst leik gegn Skallagrím, sem vann leikinn sinn í kvöld sömuleiðis. Þessi tvö lið munu líklega koma til með að berjast um síðasta úrslitakeppnissætið.
KR-liðið er ennþá aðeins með einn sigur og eru því enn í botnsætinu, einum sigri á eftir Snæfell og tveimur sigrum á eftir Breiðablik. Þær hafa enn nóg af leikjum til að bæta stöðu sína í deildinni en þá verða þær að eiga betri leik en þennan.
Myndasafn (Bára Dröfn)