ÍR tók á móti Fjölni í Hertz-hellinum í gærkvöldi í 1. deild kvenna. Fjölnir hafði nýverið bætt við sig nokkrum nýjum leikmönnum og tóku mikla rispu í fyrri hálfleik sem ÍR gat ekki unnið upp þrátt fyrir að hafa unnið seinni hálfleikinn. Fjölnir vann því ÍR 62-75.
Gangur leiksins
Bæði lið mættu til leiks reiðubúin að spila á báðum endum vallarins og þó að Fjölnir leiddi allan leikhlutann voru ÍR-ingar ekki langt undan og eftir fyrsta leikhluta var staðan 16-18, gestunum í vil.
Fjölnir hóf annan leikhlutann á því að taka 6 stiga áhlaup og koma stöðunni upp í 16-24. Í beinu framhaldi girtu heimastúlkur sig og tóku sitt eigið 6 stiga áhlaup áður en Halldór Karl, þjálfari Fjölnis, ákvað að taka leikhlé í stöðunni 22-24. Grafarvogsliðið mætti aftur til leiks í svæðisvörn sem sló ÍR svo rækilega út af laginu að þær gátu á næstu 6 mínútum ekki skorað nema 2 stig gegn 24 stigum Fjölnis. Staðan í hálfleik var því 24-48, gestunum í vil.
ÍR-ingar mættu beittari í seinni hálfleik og virtist einhugur í þeim um að laga stöðuna. Með harðri vörn og öruggari sóknum unnu þær muninn niður hægt og rólega og unnu þriðja leikhlutann með 9 stigum, 19-10. Fyrir lokaleikhlutann var staðan 43-58.
Í lokaleikhlutanum tóku Fjölnisstúlkur gott áhlaup á fyrstu fjórum mínútunum 12-4 áhlaup og höfðu í raun þar með gert út um leikinn. ÍR hélt þó áfram að berjast og tóku sitt eigið 11-2 seinustu fjórar mínútur leiksins til að vinna leikhlutann. Munurinn var þó of mikill og lokastaðan var því 62-75, Fjölni í vil.
Kjarninn
Svæðisvörn Fjölnis eftir leikhlé í öðrum leikhlutanum sá til þess að sókn ÍR-inga hökti mjög mikið og sjálfstraust liðsins brast þó ekki væri nema í nokkrar mínútur. Leikhlé Ólafs Jónasar, þjálfara ÍR, fljótlega eftir að áhlaupið hófst gat ekki stöðvað það og leikurinn vannst á þessum seinustu 6 mínútum fyrri hálfleiksins. Heimaliðið hætti þó aldrei og eiga hrós skilið fyrir að gefast ekki upp.
Samantektin
Fjölnir hefur verið að reyna flétta inn nýja leikmenn eftir jól og eru núna komnar aftur af stað með tvo góða sigra eftir að hafa tapað fyrst leik á nýju ári gegn Grindavík. ÍR gat ekki fylgt góðum sigri á Tindastól eftir með öðrum sigri, en það er aldrei auðvelt að vinna toppliðið.