spot_img
HomeFréttirFjölnir sterkari á lokasprettinum

Fjölnir sterkari á lokasprettinum

Fjölnir sigraði Grindavík þegar liðin áttust við í 1. deild kvenna í Dalhúsum í kvöld. Fjölnir byrjaði leikinn betur og komst í 9-2 en Grindavík hrökk þá í gang og komst yfir í stöðunni 15-16. Nokkuð jafnræði var með liðunum framan af í 2. leikhluta og skiptust þau á að hafa forystu. Fjölnir leiddi með 2 stigum þegar tæpar 2 mínútur voru til hálfleiks en Grindavíkurstúlkur skoruðu síðustu 10 stig fjórðungsins og leiddu í hálfleik með 8 stigum, 27-35.

Fjölnir vann sig betur inn í leikinn í síðari hálfleik og komust þær yfir snemma í 4. leikhluta. Þær létu forystuna ekki að hendi eftir það og sigldu að lokum heim 14 stiga sigri, 76-62, eftir að hafa skorað síðustu 10 stig leiksins.

McCalle Feller var stigahæst í liði Fjölnis í kvöld, skoraði 22 stig auk þess að taka 10 fráköst og gefa 4 stoðsendingar og Berglind Karen Ingvarsdóttir bætti við 21 stigi og tók 9 fráköst fyrir heimakonur.

Hjá Grindavík var Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir stigahæst með 14 stig og 7 fráköst og þá skoraði Elsa Albertsdóttir 11 stig og tók 11 fráköst.

Fjölnir situr sem fastast í 2. sæti deildarinnar með 30 stig, 6 stigum meira en Þór sem situr í 3. sæti. Fjölni bíður erfiður heimaleikur á sunnudaginn þegar þær taka á móti toppliði KR en Vesturbæingar hafa ekki tapað leik í deildinni í vetur.

Grindavík tekur á móti ÍR á þriðjudaginn en liðin sitja í 4. og 5. sæti deildarinnar með 16 stig hvort og má því búast við hörkuleik.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -