Fjölnir tók á móti KFG í Dalhúsum í kvöld í fimmtu umferð 1. deildar karla. Fyrir leik höfðu bæði lið einn sigur í farteskinu en Fjölnismenn sátu á botni deildarinnar. Heimamenn áttu góðan seinni hálfleik sem skilaði 22 stiga sigri, 92-70.
Gangur leiksins
KFG voru allt of seinir í gang til að byrja með og áður en fimm mínútur voru liðnar höfðu heimamenn í Grafarvoginum tekið 13 stiga forystu, 15-2. Slök vörn hjá gestunum varð til þess að Fjölnir gat gert það sem þeim sýndist og á hinum enda vallarins átti KFG í miklu basli með að koma sóknum sínum af stað. Það var oft erfitt hjá Garðbæjingum að komast fram hjá varnarmanni sínum og urðu þeir oft að sætta sig við erfitt skot eða töpuðu hreinlega boltanum.
Í öðrum leikhlutanum virtist aðeins annar bragur á KFG-mönnum og þeir settu í lás á varnarhelmingi sínum sem leiddi til margra hraðaupphlaupskarfa eftir tapaða bolta hjá Fjölni. Þjálfari Fjölnis, Borce Ilievski, neyddist til að taka leikhlé um miðbik leikhlutans í stöðunni 30-29. Leikurinn komst í meira jafnvægi eftir það og liðin voru nokkuð jöfn fram að hálfleik. Rétt undir lok fyrri hálfleiks tóku KFG forystuna og voru þremur stigum yfir þegar hálfleiksflautan gall, 41-44.
Hálfleiksræða Borce hefur haft tilætluð áhrif á Fjölnismenn sem skoruðu fyrstu 9 stig seinni hálfleiks með þremur þristum í röð. Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KFG, var að vonum ósáttur með sína menn og talaði einmitt um það eftir leik að hans menn hefðu komið slakir úr hálfleikshléinu. Gestirnir héldu áfram að basla með að stöðva Fjölni og skora á þá sömuleiðis. Þeir voru þó ekki nema tíu stigum frá þeim gulklæddu í lok þriðja leikhluta, 67-57.
Tíu stiga munur er langt frá því að vera óyfirstíganlegur munur en Garðbæjingar sýndu enga sérstaka tilburði í lokafjórðungnum til að minnka muninn. Ef þeir náðu að skora á heimamenn var samstundis komið svar á hinum enda vallarins. Að lokum, eftir að Addú, fyrrum leikmaður Garðabæjar, setti tvo þrista í röð með stuttu millibili gafst Ingi Þór upp og setti yngstu og óreyndustu leikmenn sína inn á með 2 mínútur eftir. Leiknum lauk eins og áður sagði 92-70, Fjölni í vil.
Tölfræði leiksins
Vendipunkturinn
Vendipunktur leiksins var upphaf seinni hálfleiksins þegar Fjölnismenn byrjuðu með því að sundurspila vörn KFG og uppskáru þrjá þrista í röð á 90 sekúndum. KFG komst aldrei til baka eftir það og misstu leikinn hægt og rólega frá sér.
Atkvæðamestir
Hjá Fjölni átti Lewis Diankulu flottan leik í kvöld; 28 stig og 20 fráköst og 40 framlagspunkta. Sigvaldi Eggertsson átti líka fínan leik þrátt fyrir að lenda í villuvandræðum í fyrri hálfleik. Hann lauk leik með 18 stig og 9 fráköst á 24 mínútum spiluðum.
KFG var leitt í kvöld af Viktori Lúðvíkssyni sem skoraði 24 stig og tók 10 fráköst. Deangelo Epps átti ágætan leik tölfræðilega fyrir KFG í öðrum leik sínum með liðinu. Hann skoraði 18 stig og tók 6 fráköst.
Tölfræðimolinn
Skotnýtingin í kvöld hjá KFG var hrikaleg, sérstaklega í þriggja stiga skotum. Gestirnir gátu aðeins sett 5 af 24 skotum fyrir utan þriggja stiga línuna (20,8%) og gekk ekki mikið betur fyrir innan hana (37,7%).
Þetta skilaði sér líka í því að Fjölnir tók 19 fleiri fráköst en KFG í kvöld. Liðin tóku samt jafn mörg skot í leiknum (77 talsins utan af velli).
Kjarninn
Fjölnismenn eru þá ekki lengur á botni deildarinnar og þetta gæti verið annað skref í áttina að því að koma sér fyrir í efri hluta deildarinnar, þar sem þeim var spáð í upphafi tímabilsins. Það skiptir máli að vinna leikina á móti lökustu liðum 1. deildar, alveg eins og gegn þeim bestu. Kannski nær Fjölnir núna að mynda með sér smá meðbyr og þó að þeir séu enn að eiga við meiðsl hjá sumum leikmönnum sínum þá ætla þeir sér ofar í stöðutöfluna.
KFG var í séns á tímabili í leiknum en glopruðu því frá sér. Þeir hafa að eigin sögn engin sérstök markmið um vinna deildina en þeir eru alls ekki sáttir við þessa frammistöðu, enda voru þeir ekki góðir nema í tæpan leikhluta. Þeir verða í bili að sætta sig við botn deildarinnar ef þeir skila ekki betri leikjum en þetta.
Myndasafn (Gunnar Jónatansson)