spot_img
HomeFréttirFjölnir með góðan sigur á Hamri

Fjölnir með góðan sigur á Hamri

Hamar hélt í Grafarvoginn í kvöld þar sem þær mættu Fjölni í 1. deild kvenna. Eftir nokkuð jafnan og spennandi leik framan af þá landaði Fjölnir góðum 15 stiga sigri, 68-53.

Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta og skiptust liðinn fimm sinnum á forystu í honum. Hamar leiddi með þremur stigum þegar skammt var eftir af fjórðungnum en Fjölnir jafnaði með þriggja stiga körfu frá Rakel Lindu Þorkelsdóttur og staðan 18-18 eftir fyrstu 10 mínúturnar.

Hamar byrjaði annan leikhluta mun betur og virkuðu Fjölniskonur hálf værukærar í upphafi hans. Hvergerðingar hittu vel á þessum kafla og höfðu náð 10 stiga forystu þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar af fjórðungnum, 19-29. Andinn virtist þá koma yfir Fjölniskonur sem fóru að spila stífari vörn og sýndu meiri baráttu. Þær héldu Hamarskonum stigalausum það sem eftir var af fjórðungnum og leiddu með 2 stigum í hálfleik, 31-29.

Fjölnir hélt áfram þar sem frá var horfið í þriðja leikhluta og seig fram úr Hamri. Þær komust 10 stigum yfir þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum en Hamar náði að laga stöðuna fyrir lokafjórðunginn með körfum frá Margréti Hrund Arnarsdóttur og Ragnheiði Magnúsdóttur. Jafnræði var með liðunum framan af af í fjórða leikhluta en Hamar gaf eftir í lokin og Fjölnir fór með sigur af hólmi, 68-53.

Stigahæstar Fjölniskvenna voru Berglind Karen Ingvarsdóttir með 16 stig og Calle Feller með 14 stig. Þá skoraði Erla Sif Kristinsdóttir 13 stig og tók 9 fráköst og Aníka Linda hjálmarsdóttir var bæði frákasta- og stoðsendingahæst í liði Fjölnis með 10 fráköst og 6 stoðsendingar auk þess að skora 4 stig.

Hjá Hamri var Ragnheiður Magnúsdóttir stigahæst með 10 stig auk þess að taka 11 fráköst. Gígja Marín Þorsteinsdóttir skoraði 9 stig fyrir gestina og Álfhildur Þorsteinsdóttir bætti við 8 stigum og tók 11 fráköst.

Fjölnir situr sem fastast í 2. sæti deildarinnar með 24 stig eftir 15 leiki, fjórum stigum á undan Þór Akureyri sem er í 3. sæti með 20 stig eftir 17 leiki. Hamar siglir lygnan sjó í neðri hluta deildarinnar og situr í 6. sæti með 6 stig eftir 16 leiki. Hamar tekur á móti ÍR á laugardaginn kemur en Fjölnir heldur í íþróttahús Kennaraháskólans á föstudaginn þar sem þær mæta Ármanni.

Tölfræði leiks

Myndasafn úr leik

Fréttir
- Auglýsing -