Nýfallnar Fjölnisstúlkur mættu í Schenkerhöllina í kvöld í 26. umferð Dominosdeildar kvenna þar sem Haukar tóku á móti þeim. Fjölnir gaf ekkert eftir þrátt fyrir fallið og eru aldeilis með tak á Haukum þar sem þær hafa nú sigrað þær í þremur af fjórum viðureignum þeirra í vetur, en þær sigruðu 70-72 í kvöld þar sem sigurinn var af dýrari gerðinni. Britney Jones gerði sér lítið fyrir og smellti niður sigurkörfunni með 3 sek. eftir af leiknum. Gríðarlega svekkjandi fyrir Hauka sem eru að berjast um fjórða sætið í deildinni og á aldeilis á brattan að sækja núna.
Byrjunarlið Hauka: Margrét Rósa Hálfdanardóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, María Lind Sigurðardóttir, Jóhanna Björk Sveinsdóttir og Siarre Evans.
Byrjunarlið Fjölnis: Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir, Fanney Lind Guðmundsdóttir, Bergdís Ragnarsdóttir, Britney Jones og Hugrún Eva Valdimarsdóttir.
Haukar háfu leik á því að komast í 17-8 en þá skellti Fjölnir í lás í vörninni og eins og vísan segir, með vörninni kemur sóknin, og þær unnu næstu 5 mínútur 11-3. Staðan því 20-19 að loknum fyrsta leikhluta og Fjölnisstúlkur til alls líklegar.
Á fyrstu mínútum annars leikhluta komust Haukar allt að 5 stigum yfir í tvígang en var ekki að takast að hrista Fjölni af sér. Fjölni kom til baka og náði að jafna leikinn í stöðunni 35-35 og eftir það var leikurinn í járnum.
Þriðji leikhlutinn spilaðist alveg eins og annar leikhlutinn, Haukar höfðu yfirhöndina en Fjölnir var aldrei langt undan og aftur var jafnt að honum loknum. Þrátt fyrir að Haukar hafi verið aðeins yfir þá litu þær ekki sannfærandi út á vellinum. Fjölnisvörnin var mjög góð og neyddi Hauka til að taka mikið að langskotum. Haukar voru bara að setja niður skotin sín. Á hinum vallarhelmingnum var vörnin hjá Haukum ekkert alltof góð en sókn Fjölnis ekki mikið betri.
Fjölnir komust svo yfir í stöðunni 65-67 þegar 3:19 voru eftir og bættu við í næstu sókn eftir að Hrund Jóhannsdóttir hirti eitt af sínum 7 sóknarfráköstum í leiknum. Haukar jöfnuðu svo leikinn í 70-70 með 12 sek. til leiksloka þegar Jóhanna Björk Sveinsdóttir fékk glæsilega sendingu frá Margréti Rósu Hálfdanardóttur. Bergdís Ragnarsdóttir tókst að brjóta vel á henni, og vanalega hefði það nóg til að koma í veg fyrir körfu, en með miklu harðfylgi kláraði Jóhanna færið sitt og fagnaði því gífurlega vel. Hún var því í kjörinni aðstöðu til að koma Haukum yfir en henni brást bogalistin á vítalínunni eins og reyndar allt Haukaliðið var búið að gera í þessum leik, vítanýtinging aðeins 50% hjá öllu liðinu. Britney Jones sýndi svo fram á snilli sína á svona stundu og dripplaði niður klukkuna og bjó sér til pláss til að ná góðu skoti sem hún setti að sjálfsögðu niður, við gríðarleg fagnaðarlæti Fjölnisstúlkna, með aðeins 3 sek. eftir. Það reyndist vera of lítill tími Hauka sem náðu ekki góðu skoti á þeim tíma.
Stigahæstar hjá Haukum voru: Siarre Evans 21 stig/19 fráköst/7 stoðsendingar/4 stolnir boltar, Gunnhildur Gunnarsdóttir 19 stig/7 fráköst, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 8 stig/5 fráköst.
Stigahæstar hjá Fjölni voru: Britney Jones 25 stig/4 fráköst/8 stoðsendingar, Bergdís Ragnarsdóttir 16 stig/12 fráköst/6 stoðsendingar, Hrund Jóhannsdóttir 11 stig/13 fráköst.
Leikmaður leiksins: Britney Jones
Mynd/ Úr myndasafni frá viðureign fyrr í vetur
Fylgstu með Karfan.is á Twitter: