spot_img
HomeFréttirFjölnir leiðir einvígið eftir framlengdan leik

Fjölnir leiðir einvígið eftir framlengdan leik

Fjölnir tók á móti Þór í kvöld í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum 1. deildar kvenna. Heimakonur höfðu sigur í framlengdum leik, 79-77 og leiða því einvígið 1-0. Sigra þarf þrjá leiki til að komast í úrslitarimmuna um sæti í úrvalsdeild að ári.

Gangur leiks
Bæði lið byrjuðu leikinn frekar rólega og var staðan 2-6 fyrir Þór þegar 5 mínútur voru liðnar af honum. Margrét Ósk Einarsdóttir kom þá Fjölni á bragið með tveimur þristum í röð og leiddu heimakonur með 12 stigum eftir fyrsta fjórðunginn 19-7.

Fjölnir hélt áfram að auka forskot sitt framan af í 2. leikhluta og leiddu þær mest með 17 stigum um miðjan fjórðunginn. Þórsarar vöknuðu þá til lífsins og komu muninum niður í 7 stig áður en liðin gengu til klefa í hálfleik.

Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta og leiddi Fjölnir með 6 stigum að honum loknum. Þórsarar mættu ákveðnar til leiks í lokafjórðunginn og jöfnuðu metinn í stöðunni 63-63 þegar skammt var liðið af honum. Liðin skiptust á að skora næstu mínúturnar og að loknum venjulegum leiktíma var staðan jöfn, 70-70. Var því gripið til framlengingar.

Allt var í járnum í framlengingunni og hvorugt lið gaf tommu eftir. Þór náði mest 4 stiga forystu en Fjölnir jafnaði fljótt metinn. Þegar rúmar 6 sekúndur voru eftir af framlengingunni brutu Fjölnisstúlkur á Hrefnu Ottósdóttur og sendu hana á vítalínuna. Hún skoraði úr seinna vítinu og kom Þór yfir, 76-77.

Fjölnir tók leikhlé í kjölfarið til að fara yfir málin fyrir lokasóknina. Í henni barst boltinn til Guðrúnar Eddu Bjarnadóttur sem setti niður þriggja stiga skot í þann mund sem flautan gall og tryggði með því Fjölni sigur í þessari fyrstu viðureign liðanna í úrslitakeppni 1. deildar kvenna.

Framlagshæstu leikmenn
McCalle Feller var stigahæst í liði Fjölnis með 19 stig auk þess að taka 11 fráköst, gefa 5 stoðsendingar og verja 4 skot. Þá skoraði Fanney Ragnarsdóttir 17 stig og tók 8 fráköst og Margrét Ósk Einarsdóttir bætti við 14 stigum og 6 fráköstum.

Hjá Þór voru það 5 leikmenn sem sáu um stigaskorið. Unnur Lára Ásgeirsdóttir var stigahæst með 19 stig auk þess að taka 12 fráköst, gefa 5 stoðsendingar og stela 4 boltum. Magdalena Gísladóttir bætti við 19 stigum og Hrefna Ottósdóttir setti 14 stig. Þá voru Heiða Hlín Björnsdóttir og Rut Herner Konráðsdóttir með 13 stig og 9 fráköst hvor.

Kjarninn
Eftir sigurinn í Dalhúsum í kvöld leiðir Fjölnir einvígið 1-0 en sigra þarf þrjá leiki til að komast áfram í úrslit 1. deildar kvenna. Það lið sem sigrar einvígið mun mæta KR eða Grindavík í úrslitum þar sem keppt er um sæti í Domino's deild kvenna að ári. 

Næsti leikur liðanna fer fram í Síðuskóla kl. 16:30 á sunnudaginn. 

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -