spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaFjölnir hélt út í Dalhúsum - Leiða undanúrslitaeinvígið við Vestra 1-0 eftir...

Fjölnir hélt út í Dalhúsum – Leiða undanúrslitaeinvígið við Vestra 1-0 eftir kaflaskiptan leik

Fjölnismenn tóku forystu í undanúrslitum 1. deildar karla með 12 stiga sigri á Vestra í Dalhúsum í kvöld. Lokatölur urðu 83-71 þar sem Róbert Sigurðsson og Marques Oliver fóru fyrir liði heimamanna.

 

Fyrsti fjórðungur einkenndist af bagalegri skotnýtingu beggja liða sem þó voru að koma sér í ágætis færi og ekki hægt að segja að varnirnar hafi verið að þvinga mikið. Þreifingar líkt og í byrjun boxbardaga á báða bóga og fullmikil virðing að mati undirritaðs m.v. vægi leiksins og árstíma. Vestri bauð uppá sitt vanalega 2-3 svæði þar sem Róberti Sigurðssyni var gefið svigrúm til að ráðast inn í teiginn en skyttur Fjölnismanna settar undir meiri pressu. Skotnýting Fjölnismanna 0% í 8 tilraunum í leikhlutanum. Gestirnir þó, eins og áður segir, ekki að nýta sín færi hinum megin á vellinum og því var nánast enginn munur á liðunum eftir 10 mínútur þar sem Vestri leiddi 12-13.

 

Fjölnismenn hófu 2. leikhluta af fítonskrafti, settu 2 þrista til að kveikja bálið og um miðbik leikhlutans var munurinn orðin heil 16 stig, 29-13. Svæðisvörnin sem heimamenn skiptu í var alls ekkert frábær en nóg til að gera hlutina erfiða, enda ekkert leyndarmál hvert sóknarupplegg Vestra yrði. Gestirnir gátu ekki keypt sér körfu fyrr en þeir fengu sín fyrstu stig á silfurfati þegar 5 og hálf mínúta var liðinn af leikhlutanum eftir hratt upphlaup Huga Halldórssonar sem gladdi augað nokkrum sinnum í hálfleiknum. Andrés Kristleifsson kom muninum í 20 stig fyrir Fjölnismenn skömmu síðar með þristi af spjaldinu sem blaðamaður dregur í efa að hafi verið á teikniborðinu ef lesa má eitthvað í glottið sem fylgdi í kjölfarið. Heimamenn léku við hvurn sinn fingur sóknarlega og fengu hvað eftir annað að vaða á skítugum skónum inn á yfirráðasvæði Vestrmanna sem virtust áhugalausir fyrir verkefninu. Staðan í hálfleik 43-25 fyrir Fjölni.

 

Síðari hálfleikur var í nokkru jafnvægi framan af þar sem heimamenn náðu að halda muninum í og við 20 stigin. Um miðbik þriðja leikhluta náðu Vestramenn loksins að binda saman vörn í sókn í nokkrar mínútur auk þess sem Hilmir Halldórsson henti í 8 stiga syrpu upp á eigið frumkvæði. Falur Harðarson, þjálfari Fjölnismanna tók þá leikhlé í stöðunni 52-38. Hilmir hefur fengið lánaða vettlinga í leikhléinu því ekki varð hann kaldari á þessari mínútu á bekknum og hlóð í enn einn þristinn beint eftir leikhléið og mómentum leiksins að snúast Vestra í vil. Fjölnismenn fóru oft illa að ráði sínu sóknarlega í leikhlutanum og töpuðu mörgum boltum. Það var því í takt við það sem var í gangi þegar Róbert Sigurðsson tapaði boltanum þegar heimamenn hefðu átt að fá síðasta skot leikhlutans en í staðinn setti Nebojsa Knezevic þriggja stiga körfu í þann mund sem flautan gall og minnkaði muninn í 6 stig, 59-53.

 

Það var ýmislegt sem benti til þess að Vestri myndi mögulega fullkomna endurkomuna þegar lokaleikhlutinn hófst, búnir að grafa sig uppúr djúpri holu og baráttan og viljinn orðinn sýnilegur á liðinu. En oft veltir lítil þúfa þungu hlassi og var kom þessi litla þúfa í formi óíþróttamannslegrar villu sem leiddi skömmu síðar til brottreksturs Nebojsa Knezevic. Þegar hér er komið við sögu er aðeins rúm mínúta liðin af 4. leikhluta. Fjölnismenn fundu aftur taktinn sóknarlega og gremjan óx í gestunum. Marquees Oliver og Hlynur Logi settu sitt hvorn þristinn í næstu sóknum og skyndilega var munurinn kominn 15 stig, 71-56. Fjölnismenn voru skynsamari á boltann og gerðu nóg varnarlega til að sigla þessu heim. Vestramenn hurfu frá því sem þeir voru að gera vel í þriðja leikhluta og öll sú vinna sem fór í að koma til baka fór fyrir lítið. Lokatölur 83-71.

 

Atkvæðamestir Fjölnismanna voru Róbert Sigurðsson með 21 stig, 7 fráköst, 8 stoðsendingar og Marques Oliver með 20 stig og 13 fráköst.

 

Hjá Vestra var Nemanja Knezevic með 22 stig og 13 fráköst og Jura Gunjina setti 14 stig og tók 7 fráköst auk þess að bæta við 4 fráköstum. Hilmir Halldórsson átti flotta innkomu af bekknum með 11 stig sem öll komu í endurkomu liðsins í 3. leikhluta.

 

Á ég að laga það?

Talsvert var um truflanir á leiknum vegna tæknilegra örðugleika á leik- og skotklukku. Sjálfsagt er engum nema tækninni um að kenna þegar svona lagað gerist en það er skelfilegt hvað flæði og skemmtanagildi leiksins fær að líða fyrir slíkar tafir og taumlaus stopp á leiknum, stundum í miðju hraðaupphlaupi. Áhorfendur borga sig inn á kappleiki og leikmenn og þjálfarar hafa lagt mikið á sig í undirbúningi allan veturinn til að komast á þennan stað á leiktíðinni. Höfum þessa hluti í lagi.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Sigurður Friðrik Gunnarsson

Myndir / Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -