spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaFjölnir barðist fyrir sigri á Flúðum

Fjölnir barðist fyrir sigri á Flúðum

Í kvöld mættust í 1. deild karla lið Hrunamanna og Fjölnis. Leikurinn fór fram í íþróttahúsinu á Flúðum.

Hrunamenn byrjuðu leikinn vel. Þeir spiluðu þétta vörn og náðu ágætu flæði í sóknum sínum sömuleiðis. Það vantaði reyndar í varnarleik liðsins að taka fráköst. Fjölnir fékk yfirleitt fleiri en eitt tækifæri til þess að skora körfu í hverri sókn. Fjölnismenn skutu og skutu en í fyrri hálfleik hittu þeir illa. Það kom ekki að sök, þeir fengu annað tækifæri og stundum það þriðja og jafnvel það fjórða til þess að koma boltanum ofan í körfuna. Eftir 6 mínútna leik höfðu t.a.m. öll stig Fjölnis komið eftir sóknarfrákast!

Undir lok 1. fjórðungs kom á Hrunamaðurinn ungi, Páll Magnús Unnsteinsson, af bekknum og leysti Corey Taite af í því hlutverki að gæta Matthew Carr Jr., leikstjórnanda Fjölnis, en Corey gætti á meðan annars leikmanns. Það bragð lukkaðist sæmilega. Þá kom í ljós hversu klókur varnarmaður Corey Taite er. Hann var duglegur að tvöfalda á Matthew og áttu Fjölnismenn í erfiðleikum með að leysa þetta varnarafbrigði þótt þeim tækist það stundum. Það er alltaf gaman að horfa á vel framkvæmdan varnarleik og á þessum kafla var virkilega skemmtilegt að horfa á varnarsamvinnu þessarar kviku tvennu Hrunamanna, Coreys og Páls Magnúsar. Hrunamenn leiddu í leikhléinu 39-36.

Fjölnismenn náðu fljótt forystunni í seinni hálfleik. Sóknarleikur Hrunamanna var hægur og smávægilegt mótlæti fór illa í leikmenn liðsins. Corey var í villuvandræðum og aðrir Hrunamenn fengu það hlutverk að gæta Matthew (reyndar ekki Páll Magnús sem hafði þó haft í fullu tréi við hann í fyrri hálfleik). Þeir réðu ekkert við hraða hans og fengu litla hjálp frá liðsfélögum sínum. Með Johannes Dolven, stóran og sterkan miðherja, inni í teignum og Matthew í stuði með boltann í höndum sigldu Fjölnismenn fram úr Hrunamönnum.

Árni Þór þjálfari Hrunamann tók leikhlé snemma í 3. fjórðungi og breytti áherslunum með ágætum árangri. Hrunamenn komu sterkari út á völlinn aftur og léku af gríðarlegum krafti þangað til þjálfari Fjölnis (þó ekki Halldór Karl aðalþjálfari liðsins því hann er aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins sem nú stendur í stórræðum í Slóveníu) tók leikhlé í stöðunni 51-53 fyrir Fjölni og náði með því að stöðva áhlaup heimamanna. Þá hafði Corey Taite fundið taktinn og fór á kostum. Leikurinn hafði verið bráðskemmtilegur og hraður um stund.

Í 4. fjórðungi voru Hrunamenn komnir með bakið upp við vegg. Aðgerðir þeirra gengu illa á báðum endum vallarins. Eitthvað varð að reyna. Hrunamenn gripu til svæðisvarnarinnar sem þeir hafa beitt í undanförnum leikjum en ekki reynt fyrr í þessum leik. Það var eins Fjölnismenn hefðu verið að bíða eftir þessu: Veisla fyrir góðar skyttur! Ekki minnkuðu vandræði Hrunamanna þegar Karlo Lebo fékk 5. villuna dæmda á sig um miðjan 4. fjórðung. Leikurinn riðlast við það. Aukin harka færðist í hann og Fjölnir hafði betur í þeirri baráttu, seig fram úr og landaði öruggum sigri, 81-100.

Besti maður vallarins var Norðmaðurinn Johannes Dolven í liði Fjölnis sem skoraði 25 stig, hirti fjölda frákasta, gaf stoðsendingar og fiskaði margar villur á andstæðingana. Matthew Carr Jr. var góður í seinni hálfleik, endaði leikinn með 24 skoruð stig. Rafn Kristján Kristjánsson lék mjög vel í vörninni og Viktor Máni Steffensen átti skínandi leik. Þá var framlag ungu mannanna eftirtektarvert. Daníel Ágúst Halldórsson sem er ekki nema 16 ára skoraði 12 stig og Ólafur Ingi Styrmisson sem er árinu eldri skoraði 4 þriggja stiga körfur úr 5 tilraunum og varðist líka vel, tók m.a. 8 fráköst og var með næstflesta framlagspunkta Fjölnismanna í leiknum.

Hjá Hrunamönnum var Corey Taite allt í öllu á löngum köflum leiksins með 41 stig. Eins og fyrr segir varðist hann yfirleitt vel líka. Halldór Fjalar Helgason átti ágætan leik. Þótt hann réði illa við það hlutverk að gæta hins snögga Matthews gerði hann annað hreint prýðilega. Eyþór Orri Árnason átti góða spretti og Páll Magnús gerði Fjölnismönnum lífið leitt með baráttu sinni og hraða þann stutta tíma leiksins sem hans naut við.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtal / Karl Hallgrímsson

Fréttir
- Auglýsing -