spot_img
HomeFréttirFjölnir á toppinn eftir sigur á Ármanni

Fjölnir á toppinn eftir sigur á Ármanni

Fjölnir og Ármann áttust við í Dalhúsum í kvöld í 1. deild karla. Heimamenn náðu forystunni strax í upphafi leiks og létu hana aldrei af hendi. Ármenningar héldu þó í við þá lengi framan af og voru duglegir að skapa sér opin skot. Rétt eftir miðjan annan leikhluta minnkuðu Ármenningar forskot heimamanna niður í tvö stig í stöðunni 28-26 en Fjölnismenn tóku þá við sér, skoruðu 14 stig á móti engu stigi gestanna og juku forystuna í 16 stig. Fjölnir leiddi síðan í hálfleik með 13 stigum, 46-33.

Jafnt var á með liðunum í þriðja leikhluta og að honum loknum hafði Fjölnir 11 stiga forystu, 67-56. Guðni Sumarliðason hóf fjórða leikhluta á að setja niður þrist fyrir Ármenninga og munurinn kominn niður í 8 stig. Valur Sigurðsson tók sig þá til og setti 8 stig fyrir Fjölni og Árni Elmar Hrafnsson bætti við tveimur til viðbótar á meðan ekkert gekk hjá Ármenningum í sókninni. Forysta Fjölnis því komin í 18 stig þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta. Þrátt fyrir góða tilraun gestanna til að vinna niður forskot Fjölnis þá voru heimamenn of sterkir á lokakaflanum og lönduðu að lokum öruggum 27 stiga sigri, 95-68.

Collin Anthony Pryor var stigahæstur í liði Fjölnis með 23 stig og 13 fráköst, Garðar Sveinbjörnsson skoraði 17 stig og Róbert Sigurðsson 15 stig auk þess að gefa 5 stoðsendingar. Hjá Ármanni var Dagur Hrafn Pálsson atkvæðamestur með 19 stig og 13 fráköst, Guðni Sumarliðason bætti við 16 stigum og tók 7 fráköst og Ólafur Ingi Jónsson skoraði 14 stig og gaf 5 stoðsendingar.

Með sigrinum í kvöld tyllti Fjölnir sér á topp 1. deildar karla með 20 stig líkt og Þór Akureyri sem tapaði fyrir Skallagrími í kvöld, en Fjölnir á leik til góða á Þór Ak. Ármann situr hins vegar í 9. sæti með 4 stig eftir 12 leiki. Skallagrímur fylgir fast á hæla toppliðanna tveggja með 18 stig og Valsmenn sitja í 4. sæti með 16 stig. Það verður því spennandi að sjá hvaða lið það verða sem tryggja sér sæti í deild hinna bestu að ári.

Fjölnir 95 – 68 Ármann (20-14, 26-19, 21-23, 28-12)

Stigaskor Fjölnis: Collin Anthony Pryor 23 stig/13 fráköst, Garðar Sveinbjörnsson 17 stig, Róbert Sigurðsson 15 stig/5 stoðsendingar, Valur Sigurðsson 12 stig, Bergþór Ægir Ríkharðsson 9 stig/6 fráköst/6 stoðsendingar, Sindri Már Kárason 5 stig/6 fráköst, Egill Egilsson 4 stig/7 fráköst, Árni Elmar Hrafnsson 4 stig, Alexander Þór Hafþórsson 2 stig, Þorgeir Freyr Gíslason 2 stig, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 2 stig, Guðjón Ágúst Guðjónsson 0 stig.

Stigaskor Ármanns: Dagur Hrafn Pálsson 19 stig/13 fráköst, Guðni Sumarliðason 16 stig/7 fráköst, Ólafur Ingi Jónsson 14 stig/5 stoðsendingar, Sigurbjörn Jónsson 8 stig, Guðni Páll Guðnason 7 stig, Elvar Steinn Traustason 4 stig, Magnús Ingi Hjálmarsson 0 stig, Guðjón Hlynur Sigurðarson 0 stig, Júlíus Þór Árnason 0 stig, Þorsteinn Hjörleifsson 0 stig, Gísli Freyr Svavarsson 0 stig, Andrés Kristjánsson 0 stig.

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -