Fjölnir lagði Keflavík í kvöld í 8 liða úrslitum Geysisbikars karla, 106-100. Fjölnir verður því ásamt Grindavík, Stjörnunni og annað hvort Þór Akureyri eða Tindastól í pottinum þegar dregið verður í undanúrslitin í hádeginu á morgun, á meðan að Keflavík hefur lokið keppni þetta árið.

Leikurinn var jafn og spennandi í upphafi. Eftir fyrst leikhluta leiddu gestirnir úr Keflavík með minnsta mögulega mun, 22-23. Undir lok fyrri hálfleiksins náðu heimamenn í Fjölni þó að verða skrefinu á undan og fóru með 6 stiga forskot til búningsherbergja í hálfleik, 50-44.

Í upphafi seinni hálfleiksins gera Keflvíkingar sig svo líklega og vinna aðeins á þessu nauma forskoti heimamanna, munurinn aðeins tvö stig fyrir lokeleikhlutann, 75-73. Í honum gerðu Fjölnismenn þó vel í að byggja forskot sitt upp á nýjan leik og hleypa Keflvíkingum aldrei yfir. Nálægt því voru þeir um miðjan leikhlutann, en heimamenn settu fótinn þá aftur á bensínið og náðu mest 15 stiga forystu. Að lokum uppskáru þeir svo 6 stiga sigur, 106-100.

Atkvæðamestur heimamanna í leiknum var Srdan Stojanovic, en á tæpum 39 mínútum spiluðum skilaði hann 35 stigum og 7 stoðsendingum. Fyrir gestina úr Keflavík var það Dominykas Milka sem dróg vagninn með 28 stigum og 11 fráköstum.
Myndir / Bára Dröfn