Valur lagði Íslandsmeistara Þórs í kvöld í Subway deild karla, 86-75.
Karfan spjallaði við Finn Frey Stefánsson þjálfara Vals eftir leik í Origo Höllinni.
Frábær sigur hjá þínum mönnum! Ekki síst eftir ansi súrt tap í Keflavík. Mér hefur nú litist ágætlega á þína menn í vetur, fyrir utan kannski fyrstu 2 leikina eða svo…liðið er mjög sterkt varnarlega…?
Jájá, við erum að þéttast svona jafnt og þétt, menn eru að læra betur inn á hvern annan. Við höfum auðvitað vitað það frá byrjun að við eigum möguleika á því að verða gott varnarlið…
Jújú, maður sér það t.d. á einstaklingunum sem fylla liðið..
Já…það er bara að verða betra og betra. Það sem hefur kannski verið okkar glíma er að finna einhvern rytma sóknarlega. En svo er þetta bara þannig sport að þetta helst allt í hendur, því betri sem vörnin er því auðveldari verða skotin, það er auðveldara að setja skot þegar vörnin heldur og að sama skapi um leið og þú byrjar að skora þá getur það fært kraft í vörnina, það er alltaf eitthvað jafnvægi þarna á milli…
Já, þetta er einhver jafnvægisslá þarna…
…já…og í dag fundum við lausnir á því í seinni hálfleik að opna sterka vörn Þórs, mér fannst strákarnir gera vel og sérstaklega Pablo og Svenni stigu upp heilt yfir í leiknum…
Já, Sveinn Búi setti þarna t.d. 2 mjög mikilvæga þrista þarna í fyrri hálfleik rétt eftir að þú tókst leikhlé 6 stigum undir…mér fannst leikurinn vera að hverfa frá ykkur á þeim tímapunkti, ég hafði þá tilfinningu að Þórsararnir myndu bara bæta í, kannski ná að keyra meira upp hraðann og keyra yfir ykkur…?
Mér fannst við gera full mikið af litlum mistökum varnarlega, Þórsararnir með allt sitt sjálfstraust er bara lið sem refsar, þeir settu svolítið margar svona sjálfstraustskörfur, körfur sem þú setur kannski meira svona þegar sjálfstraustið er í botni. Liðið er náttúrulega búið að vera frábært og er hrikalega vel mannað. En þegar okkur tókst svo að binda hnúta á nokkra hluti hjá okkur varnarlega þá fannst mér þetta koma og við fengum meira öryggi í það sem við vorum að gera.
Einmitt. Ég talaði við Pavel eftir Stjörnuleikinn og minntist á að mér þætti kannski liðið vera svolítið að gefa af opnum þristum… og hefur verið að gera það svolítið í vetur, það var alls ekki þannig í kvöld, ekki í síðari hálfleik í það minnsta…?
Það besta við körfuboltann er að þú getur aldrei tekið alveg allt í burtu, þannig að þú ert alltaf að taka einhverja sénsa og stundum þarf maður að reyna að finna leiðir til þess að klekkja á liðum. Pavel hefur verið frábær í að hjálpa mér með leikplan og ræða um hvað við ætlum að gera og með hvaða áherslur við ætlum að fara í hvern leik. Við höfum mörg vopn og marga hluti með okkur og mér finnst við enn hafa rými til bætinga sem er eiginlega gott að finna sem þjálfari á þessum tímapunkti.
Akkúrat. Þér hlýtur að líða bara ágætlega á þessari stundu með liðið og getur horft björtum augum til framtíðar?
Jájá, það er gott að vera hérna á Hlíðarenda, þetta er góður hópur og skemmtilegir strákar. Við nýttum landsleikjahléð vel til æfinga og Sveinn Búi sérstaklega, er búinn að vera eins og vitleysingur hérna inn í sal að æfa og skjóta tvisvar á dag. Það er það sem ungir menn þurfa að gera þegar sjálfstraustið hverfur aðeins, fara inn á gólfið og vinna inn fyrir því.
Já, gaman að sjá hann hérna í kvöld, góð frammistaða hjá honum. Eitt að lokum, ég veit að þú nennir ekkert að tala um þetta, EN ég er bara svo spenntur að vita hvort Valur ætli að bæta við Kana eða ekki! Mér finnst það mjög spennandi!
Já auðvitað! Við erum auðvitað vanir því í íslenska boltanum að sjá Bandaríkjamann í hverju liði og jafnvel tvo…
…já, en er þetta leyndarmál? Stendur það til eða ekki að finna Kana?
Neinei…það er ekki leyndarmál að við höfum verið að skoða okkar mál en okkur liggur ekkert á, við ætlum ekki að fá Kana inn í liðið bara til að fá Kana, þetta þarf að meika sense…
…vanda valið…
…jájá svo erum við bara með góða stráka, Benzi var frábær í síðasta leik, hentaði kannski ekki eins vel í þessum leik en Svenni hentaði betur í þessum leik varðandi varnarplanið. Við erum með Ástþór enn úti en erum komnir með Pálma Geir inn í þetta líka sem mun hjálpa okkur – þetta er lið en ef við finnum eitthvað púsl sem gerir liðið betra þá skoðum við það.