Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR segist hafa gerst sekur um mistök í bikarleik KR gegn Þór á Akureyri.
"Þórsarar komu mjög sterkir til leiks í fyrsta leikhluta og þá sérstaklega Tryggvi sem fór mikinn undir körfunni." Tryggvi sem hér um ræðir er hinn 18 ára og 214 cm Tryggvi Snær Hlinason sem skoraði 16 stig í fyrri hálfleik.
"Varnarlega vorum við á hælunum, hvort sem það var vanmat eða menn of kokhraustir eftir föstudaginn veit ég ekki. Við tökum svo öll völd í 2. og 3. leikhluta og komumst mest um 20 stigum yfir."
Finnur segist þá hafa farið að fagna of snemma með lélegt "game management" og fór of snemma of djúpt inn á bekkinn.
"Ég set of marga stráka sem hafa of fáar mínútur á bakinu í vetur inná í einu. Set þá í erfiða stöðu og þegar Þórsarar byrja að mjatla muninn niður þá stoppa ég ekki "rönnið" þeirra. Þegar byrjunarliðið kemur inná þá eru þeir dottnir úr öllum rhytma eftir langa bekkjarsetu og við rétt áum að loka leiknum með minnsta mun."
Finnur segist axla alla ábyrgð á að leikurinn hafi verið orðinn svona tæpur í lokin, en vill þó ekki taka neitt af karakternum sem Þórsliðið sýndi í gærkvöldi. "Það er eitthvað skemmtilegt að gerjast í körfuboltanum á Akureyri og ljóst að það eru spennandi tímar framundan þar."
Miðherji KR, Michael Craion átti í stökustu vandræðum á tímabili með að koma skoti á körfu Þórs þar sem Tryggvi annað hvort varði skot hans eða truflaði skotið svo það rataði ekki rétta leið. Finnur vildi þó taka það fram að Craion hefur verið að fást við einhver meiðsli síðan á föstudaginn og vildi þjálfarinn því fara sparlega með hann.
Aðspurður hvort Tryggvi Hlinason ætti heima í úrvalsdeild sagði Finnur: "Já, auðvitað. En ég held að hann hafi alveg haft gott af því að taka árið fyrir norðan í verndaðra umhverfi. Svo þarf hann bara að komast erlendis í alvöru prógramm."
Mynd: Páll Jóhannesson (Thorsport.is)