Stjarnan hefur samið við finnskan landsliðsmann um að leika með liðinu í Dominos deild karla á komandi leiktíð. Bakvörðurinn Antti Kanervo var í morgun tilkynntur sem leikmaður Stjörnunnar.
Kanervo er 29. ára gamall hávaxinn bakvörður sem kemur frá finnska úrvalsdeildarliðinu Helsinki Seagulls. Hann hefur einnig leikið í frönsku B-deildinni og verið í bestu liðum finnsku deildarinnar. Antti var með 12,6 stig og 2,7 fráköst að meðaltali á 28 mínútum í leik fyrir finnska liðið á síðustu leiktíð. Hann var með 40% þriggja stiga nýtingu.
Leikmaðurinn á að baki 15 landsleiki fyrir Finnland og hefur meðal annars leikið þrjá leiki í undankeppni HM en finnska liðið er með Íslandi í riðli.
Fyrr í sumar tók Arnar Guðjónsson við þjálfun liðsins af Hrafni Kristjánssyni. Þá samdi landsliðsmaðurinn Ægir Þór Steinarsson við liðið á dögunum og lykilmenn á borð við Hlyn Bæringsson og Tómas Þórð verða áfram í Garðabænum.