Það má svo sem alveg deila um það hvort sigur Keflavíkur hafi verið sanngjarn í kvöld því leikurinn var hnífjafn allt frá fyrstu mínútu og sigurinn getað dottið beggja megin í raun og veru. En það voru heimasæturnar í Keflavík sem toppuðu á réttum tíma ef svo má segja og höfðu að lokum 84:81 sigur gegn Valskonum. Sigurinn þýðir að Keflavík trónir nú á toppi deildarinnar með 5 sigra og 1 tap eftir leiki kvöldsins.
Tölfræðin lýgur!
Já það má í raun vera nokkuð ótrúlegt ef litið er í frákastabaráttu leiksins að Keflavík hafi náð að landa sigri. Valsstúlkur tóku nefninlega 24 sóknarfráköst í leiknum. Ef svo litið er á þriggjastiga nýtingu Keflavíkur þá var hún aðeins 24% (5/21)
Síðasta skotið
Mia Loyd átti lokaskot kvöldsins þegar hún setti niður langan flautu þrist en það dugði hinsvegar skammt að þessu sinni en fín tilþrif engu síður.
Kjarni
Það er hreint út sagt frábært að fylgjast með þessu Keflavíkurliði spila körfubolta. Langt síðan maður hefur séð svo óeigingjarna liðsvinnu og þetta á eftir að fleyta liðinu langt. Hinsvegar sýnir sig oft á köflum nýliðabragur liðsins þegar þær ætla sér kannsk hluti sem þær ráð ekki almennilega við. Valsliðinu vex ásmegin og eftir flottann sigur gegn Grindavík í síðustu umferð er liðið að komast í gagn eftir erfiða byrjun. Valsliðið á eftir að láta meira af sér kveða í vetur en að verma botnsæti deildarinnar það er nokkuð ljóst.
Hetjan
Við hendum þessari nafnbót á Emilíu Ósk Gunnarsdóttir þetta kvöldið. Emilía átti líkast til mikilvægasta "play" kvöldsins þegar hún blokkaði þriggjastiga skot Mia Loyd þegar um 8 sekúndur voru eftir af leiknum og þrjú stig skildu liðin. Ekki nóg með það brunaði Emilía upp völlinn og setti síðustu stig Keflavíkur.