spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaFimmti heimasigur Hauka í röð

Fimmti heimasigur Hauka í röð

Haukar tóku á móti Tindastól í Bónus deild kvenna í körfuknattleik í Ólafssal í kvöld.

Heimakonur, sem unnu sterkan útisigur á Keflavík í síðustu umferð, byrjuðu leikinn mun betur og leiddu 11-0 eftir rúmar 4 mínútur. Zuzanna skoraði fyrstu stig Stóla úr vítum um miðjan fyrsta leikhluta og leikurinn jafnaðist aðeins eftir það, en Haukar leiddu 19-13 eftir leikhlutann.

Í öðrum leikhluta var uppi svipuð staða, Haukastúlkur skoruðu fyrstu 10 stig leihlutans og komust í 29-13 en ólseigir Stólar komu til baka, skoruðu síðustu 5 stig leikhlutans og munurinn 5 stig í hálfleik 37-32. Randi Brown fór meidd af velli og munar svo sannarlega um minna hjá Stólum.

Í þriðja leikhluta héldu Stólastúlkur áfram að éta niður muninn, Eva Margrét setti fyrstu körfuna fyrir heimakonur en svo komu 9 Stólastig í röð og þær komust yfir þegar Bérenger setti þrist 40-41. Tinna svaraði strax með þristi og Haukar fóru að bæta í hægt og rólega en Stólar hengu í þeim og munurinn 5 stig fyrir lokaleikhlutann, 64-59. Fljótlega fékk Berenger sína fimmtu villu og útlitið ekki gott fyrir Stóla.

Haukar sigu framúr og þegar um 2 mínútur lifðu leiks voru þær komnar með 17 stiga forystu 86-69. Haukastúlkur litu svo á að leikurinn væri búinn og virtust hættar að nenna að spila körfubolta. Stólar gengu á lagið og unnu lokamínúturnar 17-4 og voru nálægt því að gera þetta spennandi en munurinn reyndist einfaldlega of mikill.

Hjá Haukum var Lore Devos atkvæðamest með 26 stig og 14 fráköst en Edyta leiddi Stóla með 25 stig og 7 fráköst. Enn og aftur voru Stólar að tapa frákastabaráttunni illa en Haukar tóku 55 fráköst gegn 36 hjá gestunum. Ljóst punktur fyrir Stóla var að sjá Evu Rún Dagsdóttur á vellinum en ekki er vitað hversu alvarleg meiðsli Randi Brown reynast.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -