spot_img
HomeFréttirFimmta umferðin í Domino´s deild karla hefst í kvöld

Fimmta umferðin í Domino´s deild karla hefst í kvöld

Í kvöld hefst fimmta umferðin í Domino´s deild karla. Allir leikirnir hefjast kl. 19:15 og tveir þeirra verða í beinni netúsendingu, frá Ljónagryfjunni í Njarðvík og Síkinu á Sauðárkróki. Það verður hamagangur í Reykjanesbæ í kvöld þar sem bæði Njarðvík og Keflavík leika heima.
 
Leikir kvöldsins, 19:15
 
Keflavík – Fjölnir
Keflvíkingar unnu sinn fyrsta deildarsigur á dögunum þegar liðið vann KFÍ á Ísafirði. Þá höfðu Keflvíkingar tapað þremur fyrstu deildarleikjunum sínum og sett þar með nýtt og stórvafasamt félagsmet. Þeir virðast þó vera að hressast þessi misserin eftir sigur á KFÍ í deild og Grindavík í Lengjubikar. Fjölnismenn töpuðu gegn Breiðablik fyrr í vikunni í Lengjubikarnum en þar áður í deild lögðu þeir Tindastól með magnaðri flautukörfu frá Tómasi Heiðari Tómassyni. Ætlar Grafarvogsliðið að standa sína plikt sem jójó-lið eða ná þeir að kreista fram stöðugleika?
 
Njarðvík – Stjarnan (Beint á Sport TV)
Eftir nokkuð óvæntan sigur á silfurliði Þórs úr Þorlákshöfn í fyrstu umferð hafa Njarðvíkingar tapað síðustu þremur deildarleikjum í röð. Jeron Belin var látinn fara og Marcus Van verður því eini erlendi leikmaður Njarðvíkinga í kvöld. Stjörnumenn jöfnuðu sig á tapinu gegn Snæfell í síðustu umferð með því að leggja Þórsara í Ásgarði svo þessi lið sem mætast í Ljónagryfjunni í kvöld eiga þá eitthvað sameiginlegt.
 
ÍR – Grindavík
Íslandsmeistarar Grindavíkur mæta í Hertz hellinn í Breiðholti eftir þægilegan sigur gegn Njarðvík í síðustu umferð. Þar áður höfðu Grindvíkingar legið gegn Þórsurum í Þorlákshöfn. ÍR lá í Borgarnesi í seinustu umferð og eru um þessar mundir í 9. sæti deildarinnar með 2 stig en einu stig liðsins í deildinni til þessa komu í Ljónagryfjunni eftir spennuslag þar sem Eric Palm gerði sigurstigin.
 
Tindastóll – Skallagrímur (Beint á Tindastóll TV)
Stólarnir eru taplausir í Lengjubikarnum en stigalausir í deildinni. Ágætur fréttaritari Karfan.is í Síkinu líkti sínum mönnum við Liverpool af þessum sökum. Síðasti deildarleikur ætti að vera Tindastól í fersku minni og ef sá leikur svíður nægilega mikið ættu Skallagrímsmenn að vera í vandræðum. Basl nýliðanna var töluvert í Hafnarfirði í Lengjubikarnum þegar þeir lágu gegn Haukum og léku þar án Haminn Quaintance en fleiri eru á meiðslalista Borgnesinga sem þó eru á meðal toppliða í deildinni með sex stig. 
Fréttir
- Auglýsing -